Fyrir vínáhugafólk sem gengur Jakobsveginn er spottinn í gegnum Rioja einhvers á áhugaverðasti. Við gengum þennan kafla sumarið 2022 og meðal þeirra vínhúsa sem verða á leið manns, á annarri dagsleið út frá Logrono er Bodegas Alvia, sem einmitt leggur sig fram um að taka vel á móti pílagrímum á þessari fornfrægu gönguleið. Livius er eitt af betri vínum Alvia gert úr þrúgum af gömlum Tempranillo-vínvið sem var gróðursettur á árunum 1905-1920 og látið þroskast í tunnum úr franskri, amerískri og ungverskri eik. Árgangurinn 2010 er með þeim betri í Rioja á öldinni og því frábær að fá enn tækifæri til að geta keypt þau vín. Þetta er vín sem komið er á fimmtánda árið en sýnir engin þreytumerki, þó vissulega sé komin þroskamerki. Liturinn er enn djúpur og dökkur og nefið er orðið flókið þar sem ávöxturinn er byrjaður að víkja fyrir næstu ilmbylgju, krydd og reykur, hangið nautakjöt í bland við sæta vanillu og sultu. Tignarlegur og fínn strúktúr, vín sem er á toppnum og á alveg allnokkur mjög góð ár eftir.
5.992 krónur, mjög góð kaup, hörkuvín sem er flottur fulltrúi fyrir 2010 árganginn. Með nauti, lambi og mildri villibráð.
-
9