Hæ, ég heiti Sarah og verð þjónninn ykkar í kvöld!

Það sama á við um mat og flest annað í Bandaríkjunum. Það er hægt að finna allt sem maður vill, ef maður er reiðubúinn að leita að því og borga fyrir það. Viltu fisk frá Íslandi, grænmeti frá Ítalíu og kjöt frá Japan? Ekki málið. Það er hægt að fá stórkostlegan mat og það er hægt að fá ömurlegan mat. Það er hægt að finna ferskustu og bestu hráefni sem til eru en einnig hráefni sem virðast hafa verið búin til í verksmiðju en ekki orðið til með náttúrulegum hætti.

Af þessu leiðir að mjög erfitt er að alhæfa nokkurn skapaðan hlut um Bandaríkin. Engu að síður er þetta þó það ríki veraldar sem okkur er tamast að skilgreina út frá alhæfingum. Og vissulega finnst manni stundum sem að ákveðnar alhæfingar séu ekki algjörlega út í hött þegar matur og veitingahús eru annars vegar.

Það eru fáar þjóðir jafnuppteknar af mat og Bandaríkjamenn nema þá ef vera skyldu Evrópuþjóðirnar við Miðjarðarhaf. Nálgun Bandaríkjamanna er þó með allt öðrum hætti. Þeir eiga ekki sömu rótgrónu matarmenningu og Frakkar og Ítalir þar sem mönnum er í blóð borin ákveðin virðing fyrir hefðum og matreiðsluaðferðum. Á móti má segja að þeir eigi hlutdeild í matarmenningu allra þjóða. Í ítölsku hverfunum í New York og Boston er hægt að fá jafngóðan ef ekki betri ítalskan mat en á flestum veitingahúsum Ítalíu. Í Washington D.C. er ekki vitlaust að fara á eþíópskan stað í Adams Morgan-hverfinu. Í kínahverfinu í San Francisco gæti maður alveg ímyndað sér að maður sé staddur í Hong Kong. Í New York nær frönsk matreiðsla hvað hæstum hæðum á bestu veitingastöðunum og í New Orleans er hægt að finna stemmningu sem er engu lík.

Dags daglega er veruleikinn hins vegar annar. Farið út fyrir stórborgirnar og það verður oft fátt um fína drætti. Í Frakklandi, Ítalíu, Spáni og víðar í Evrópu er hægt að lenda í yndislegum matarævintýrum á ólíklegustu stöðum. Í litlum þorpum leynast litlir fjölskyldustaðir þar sem bornir eru fram réttir eldaðir af svo mikilli alúð að einföld máltíð verður að veislu. Þessu er ólíkt farið í Bandaríkjunum. Maður þarf að hafa meira fyrir hlutunum, þ.e.a.s. ef maður vill ekki verða fyrir vonbrigðum er eins gott að vera búinn að finna öruggan áningarstað fyrirfram.

Ég gleymi seint sumarkvöldi á Cape Cod á huggulegum veitingastað við fallega bátahöfn. Umhverfið var fullkomið, þetta var eins og vera staddur á póstkorti á þessum stórkostlega stað. Og svo kom maturinn. Humarinn var nær því að vera soðinn en grillaður og synti um í smjöri sem bragðaðist ekki eins og smjör. Fiskur var sömuleiðis það ofeldaður að hann var orðinn bragðlaus og með einhverju sem átti væntanlega að vera grænmeti. Allt kom þetta á pappadiskum – og þetta var ekki ódýr staður, heldur sá staður sem hvað mest var mælt með á þessum slóðum. Svipuðu hef ég lent í víðar, allt of oft.

Það er því miður eins og þetta land margleitninnar leiti allt of oft í einsleitnina. Þótt ríkin séu fimmtíu eru það sömu uppljómuðu skiltin sem taka á móti manni hvert sem komið er. Í Bandaríkjunum eru það keðjurnar sem ráða ríkjum! Neðst í goggunarröðinni eru hamborgakeðjunnar og aðrir skyndibitastaðir. Skömminni skárri eru keðjur á borð við Fridays, Applebees, Ruby Tuesday og Chilis sem eru með útibú á flestum stöðum. Allir bjóða þessir staðir upp á nokkurn veginn það sama: borgara, svínarif, pasta og einhverja rétti sem taka eitthvað frá mexíkóskri eða asískri matargerð. Maður veit nákvæmlega hvað maður fær og hvað maður þarf að borga fyrir það. Vilji menn aðeins meiri sérhæfingu þá er hægt að fara á einhverja steikarkeðjuna, Lone Star, Longhorn eða Outback sem vísa til Texas eða Ástralíu. Fiskinn er t.d. hægt að fá hjá Red Lobster og útbreiddasta ítalska keðjan er Olive Garden. Og alls staðar er þetta nokkurn veginn eins. Jafnvel bestu staðirnir eru oft hluti af veitingahúsakeðju þótt vissulega séu þær keðjur ekki nærri því eins stórar og hinar. Vilji menn fá góða nautasteik er t.d. þjóðráð að fara á Morton’s, hvort sem er í Chicago, Boston, Washington, Orlando eða….

Inni má milli eru svo staðbundnir staðir sem ekki eru hluti af neinni keðju. Oftar en ekki taka þeir hins vegar mið af því sem keðjurnar bjóða upp á. Menn eru ekki að taka neina sénsa. Allt miðast við hinn staðlaða smekk. Og hina stöðluðu þjónustu. Þjónninn byrjar á að kynna sig með nafni (Hæ! Ég heiti Jennifer/Peter/Michael/ Sarah og verð með ykkur í kvöld!) og spyrja hvaða drykki fólk vilji og kemur síðan reglulega aftur til að athuga að allt sé í lagi. Á betri stöðum þylur hann einnig upp rétti dagsins, yfirleitt á það miklum hraða að gestir ná ekki nema einstaka orði. Að lokum gerir hann ráð fyrir að fá 15-20% í þjórfé sem bæta verður við reikninginn. Nema á dýrustu stöðunum koma drykkirnir oftast í risastórum könnum, ísajökulkaldir og með miklu klakamagni þegar við á. Vínlistinn er gjarnan eitthvað grín og þótt þú biðjir um hann heldur þjónninn áfram að reyna að troða inn á þig þriggja dollara Zinfandel-glasinu. Skammtarnir eru risavaxnir og einn myndi metta fjóra meðalmenn.

En svo kemur líka alltaf að því, einmitt þegar maður er farinn að reyta hár sitt og heita því að borða aldrei aftur í Bandaríkjunum að maður dettur inn á stað þar sem maður fær slíka máltíð að allt annað er fyrirgefið. Stórkostlegan fisk eða safaríkustu steik sem hægt er að ímynda sér, með látlausri og fágaðri þjónustu, fallegu umhverfi og grænmeti sem virðist hafa verið ræktað í garðinum við hliðina á. Vínlistinn spennandi og djarfur og alls ekki dýr.

Það er nefnilega allt til í Bandaríkjunum.

 

Deila.