Bleikjuhrogn

Við eigum kannski ekki styrjur í íslenskum vötnum og ám en við eigum lax og bleikju. Það vill oft gleymast að hrogn laxa og bleikju eru með því ljúffengasta sem hægt er að fá. Bleikjuhrogn eru í sérlegu uppáhaldi og best er að borða þau með sama hætti og rússneskan styrjukavíar: Á litlum blinispönnukökum með sýrðum rjóma og rauðlauk. Þetta er frábær lystauki í upphafi matarboðs og fljótlegur í undirbúningi. Auðvitað er hægt að baka blinis-pönnukökurnar sjálfur en það er einnig hægt að kaupa þær tilbúnar í verslunum á borð við Hagkaup rétt eins og hrognin. Setjið svo sýrðan rjóma á pönnukökurnar, best er í þessu tilviki að nota 36% rjómann. Þá hrognin og loks fínsaxaðan rauðlauk. Þá er ekkert eftir nema að að raða blinisinu á fallegt fat og opna kampavínið.

Deila.