Tandoori-kjúklingur prófessorsins

Þennan rétt fengum við fyrst í matarboði á prófessorsheimili í vesturbænum fyrir um áratug og hefur hann reglulega ratað á diskana síðan.

  • 1 kg kjúklingabringur eða úrbeinuð læri
  • 1 dós grísk jógúrt
  • 1 lítill laukur
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 1 grænn chili-pipar, fræhreinsaður
  • 2-3 sm af engiferrót, flysjuð
  • 2 tsk Garam Masala-krydd
  • 1 sítróna
  • 1 tsk salt

Skerið kjúklinginn í bita og setjið í fat. Kreistið safann úr sítrónunni yfir og látið marínerast í allt að hálftíma. Setjið önnur hráefni í blandara. Hellið yfir kjúklinginn og látið liggja í ísskáp í nokkra klukkutíma. Best er ef hægt er að leyfa þessu að blandast saman yfir nótt. Það er þó ekki nauðsynlegt.

Það er tilvalið að frysta afganginn af jógúrtblöndunni og nota einu sinni í viðbót.

Takið kjúklingabitana upp úr leginum. Setjið í ofnfast fat og eldið í 220 gráðu heitum ofni í 25-30 mínútur. Berið fram með blómkáli og kartöflum að hætti Norður-Indverja, indverskum kryddgrjónum, raita-jógúrtsósu og Naan-brauði.

Það er langbest að kaupa tilbúið Naan-brauð, t.d. hjá Austurlandahraðlestinni.

Með þessu ferskt hvítvín t.d. hið suður-ítalska Pasqua Chardonnay eða Montes Sauvignon Blanc frá Chile.

Deila.