Eyjakoníakið Ile de Ré

Eitt af því forvitnilegasta sem við höfum fengið til smökkunar upp á síðkastið er koníakið Ile de Ré frá Camus. Það er engin tilviljun að flaskan af Ile de Ré minnir frekar á skoskt eyjaviský en koníak. Ile de Ré eða Ré-eyja er um flest einstakt á koníaksmarkaðnum. Þetta er ekki Borderies-koníak líkt og flestar afurðir Camus og þaðan af síður Fine Champagne koníak heldur Fine Island. Ré er eyja vestur af hafnarborginni La Rochelle og þótt hún sé vestasti hluti hins skilgreinda ræktunarsvæðis koníaks er eyjan þekktari fyrir framleiðslu á sjávarsalti en koníaki.

Alls eru Ugni Blanc-þrúgurnar sem notaðar eru til koníaksframleiðslu ræktaðar á 300 hektörum á Ré og fyrir nokkrum árum tók Camus-fjölskyldan saman við samtök vínræktenda á eyjunni og lagði grunn að þessu „byltingarkennda“ koníaki. Aðstæður á Ré eru um margt frábrugðnar þeim á meginlandinu. Loftslagið er mildara og sjávarloftið hefur veruleg áhrif á þróun þrúgnanna. Joð-magn er til dæmis níu sinnum hærra en í þrúgum á meginlandinu (Islay einhver?).

Koníakið er framleitt í þremur útgáfum, Fine Island, Fine Island Double Matured og Fine Island XO. Double Matured útgáfan sem hér fáanleg byggir á svipaðri aðferð og svokölluð Double Wood viský þar sem koníakið er geymt á tveimur tegundum af tunnum áður en því er tappað á flöskur. Á Ré eru þó ekki notaðar gamlar púrtvínstunnur líkt og í Skotlandi heldur tunnur sem áður hafa verið notaðar undir koníak, annars vegar frá eyjunni og hins vegar frá Camus á meginlandinu.

Þótt Ile de Ré sé koníak og ekkert að leyna því þá er karakterinn óneitanlega einstakur, með vott af reyk og sjávarlofti og örlítið joð í eftirbragðinu. 9.999 krónur.

Deila.