Pasta með ítölskum pylsum og rósmarín

Hver kannast ekki við það að finna uppskrift í erlendu tímariti eða matarbók sem mann dauðlangar til að reyna. Þegar á hólminn er komið reynist hins vegar erfitt að elda viðkomandi rétt þar sem lykil hráefnin eru ekki fáanleg í íslenskum verslunum. Þótt margt hafi breyst til batnaðar í þeim efnum á síðustu árum er enn allt of margt sem ekki er hægt að fá annaðhvort vegna innflutningshafta eða þá framtaksleysis (hvort sem er innflytjenda, kjötvinnslumanna eða annarra).
Ágætt dæmi eru ítalskar pylsur sem eru meginuppistaða margra góðra réttra. Ítalir myndu kalla þær Salsiccie en í Bandaríkjunum eru þær þekktar undir heitinu Italian Hot Sausage. Hér á landi er varla til neitt í líkingu við pylsurnar ítölsku, allra síst hinar íslensku pylsur. Það eru einungis einstaka vandaðar kjötbúðir sem eru farnar að bjóða upp á góðar pylsur.  Samt ætti að vera tiltölulega auðvelt að framleiða þær í hvaða kjötvinnslu sem er. Líklega er markaðurinn hins vegar ekki kominn lengra en það að einungis einn og einn sérvitrungur sér ástæðu til að kvarta yfir salsiccie-leysinu.

Það þýðir hins vegar ekki að menn eigi að setjast með hendur í skaut og setja þessar uppskriftir í neðstu skúffuna í von um að hráefnin verði einhvern tíma til staðar. Oft er hægt að leysa málin með furðu einföldum hætti.

Eftirfarandi uppskrift var fastur liður á borði fjölskyldu greinarhöfundar er hún bjó um skeið í Bandaríkjunum en þar er mikið um fólk af ítölskum uppruna og Italian Hot Sausage og Italian Sweet Sausage til í hverju kjötborði með minnstu sjálfsvirðingu.

Þegar heim var komið reyndist hægt að halda réttinum inni á dagskrá með góðri ráðgjöf frá reyndri pylsugerðarkonu.

Samkvæmt uppskriftinni á að byrja á því að losa kjötið úr himnunum og steikja það. Það er því ekki einu sinni nauðsynlegt að búa til sjálfar pylsurnar heldur einungis sjálfa pylsufyllinguna. Að sjálfsögðu er hins vegar einnig hægt að nota þessa uppskrift alla leið og búa til „pylsur“. Uppskriftirnar að salsiccie eru nær óteljandi. Þessi aðferð hefur reynst mér vel miðað við íslenskar aðstæður:

Krydduð ítölsk pylsa – „Salsiccie“

 • 800 g svínakjöt. Gott er að nota úrbeinaðan svínahnakka. (OK, það má líka nota svínahakk)
 • 4-5 hvítlauksgeirar
 • 3 tsk salt
 • 3-4 matskeiðar fennel-krydd
 • klípa af cayenne-pipar
 • 1 msk þurrkaður rauður chili-pipar (má sleppa)
 • 2 msk Sambuca (má sleppa)

Hakkið kjötið, bætið við hvítlauk, kryddi og loks vökva þar til pylsudeigið er orðið mjúkt í sér en ekki of blautt.

Og þá er búið að ýta fyrirstöðunni úr vegi og eldamennskan getur byrjað.

Í pastasósuna þarf:

 • Ítölsku „pylsurnar“okkar
 • 2 rauðlauka, saxaða
 • Lúku af fersku rósmarín eða 2 msk þurrkuðu
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar
 • 500 g pasta (Penne eða Casarecce)
 • 1 rjómapeli eða um 3 dl matreiðslurjómi
 • 100 g niðurrifinn ferskur Parmesan-ostur
 • Ólífuolía til eldunar

Brúnið rauðlaukinn í olíunni í nokkrar mínútur á miðlungshita, bætið síðan við „pylsunum“, rósmarín og lárviðarlaufum. Steikið pylsurnar vel í um korter og passið að þær brenni ekki við. Að því búnu er tómötunum bætt saman við og sósan látin malla í smástund á vægum hita, um tíu mínútur. Setjið þá rjómann saman við og látið malla áfram  á vægum hita í 10-15 mínútur og jafnvel lengur ef þið nennið.

Smakkið réttinn til með salti og pipar á meðan hann mallar á pönnunni og jafnvel getur verið gott að bæta við fennel.

Samhliða þessu verður að muna eftir pastanu. Sjóðið pasta í stórum potti með söltuðu vatni skv. leiðbeiningum á pakkanum.

Þegar pastað er tilbúð er vatnið síað frá og pastanu bætt saman við sósuna, helst á pönnunni (það er því gott að nota stóra pönnu) ásamt 2/3 af parmesanostinum. Veiðið lárviðarlaufin úr sósunni áður en þið bætið pastanu saman við.

Berið réttinn fram með afganginum af rifna parmesanostinum. Gott Chianti Classico er afbragð með.

Ef þið viljið fara út í alvöru pylsugerð ættuð þið svo að lesa þetta hér.

Deila.