Cantenac Brown 2010

Cantenac Brown í Margaux er að öðrum ólöstuðum líklega það Grand Cru-vín frá Médoc í Bordeaux sem hefur notið mestrar hylli á Íslandi síðustu áratugina. Við höfum nýlega fjallað um sécond-vínið Brio og svo hliðarvínið Lamartine-Brown, sem er gert af skika Cantenac-ekrunnar sem fellur utan Margaux-skilgreiningarinnar. Tvö alveg hreint unaðsleg vín, en hérna er það sem sagt stóra Chateau-vínið sem við tökum fyrir.

Það hefur verið nokkuð hvíslað um 2010-árganginn í heimsóknum til Bordeaux síðustu árin. Sum chateau fullyrða að vín þeirra það árið slái þeim frá ofurárinu 2009 við. Og það eru ýmsir sammála því þegar t.d. Cantenac 2010 er annars vegar. Robert Parker segir þetta besta Cantenac-vín allra tíma og gefur því 94 punkta. Og já, þetta er algjörlega magnað vín sem hæglega má geyma í 20, 30 jafnvel 40 ár. Það er eiginlega synd að mæla með því núna til að opna – þetta er vín sem maður á að geyma þótt það sé hrikalega flott núna. Enn eru til 2008 Cantenac í búðunum, drekkið það núna og stingið flösku af þessu í kjallarann.

Vínið er svakalega dökkt, nær svart, ávöxturinn ennþá ríkjandi, svaðalega kröftugur og djúpur, sólber, sólberjalíkjör, plómur, svöl og mikil sýra sem gegnsýrir vínið, eikin út um allt, fersk, brennd, tannín hörð og aflmikil.

12.599 krónur. Algjört „must buy“.

Deila.