Kominn tími til!

Það er til mikið af góðum ítölskum veitingastöðum í heiminum en þeir eru ekki margir sem jafnast á við Era Ora í Kaupmannahöfn. Era Ora – nafnið þýðir „það er kominn tími til“ – ber ekki mikið yfir sér að utan. Hann er við litla götu við síkin í Kristjánshöfn og að utan eru engin merki þess að þarna leynist stórkostlegur veitingastaður. Engin skilti eða annað sem gefur til kynna hvar Era Ora er að finna. Þegar inn er komið blasir hins vegar við glæsilegur og hlýlegur matsalurinn er minnir meira á ítalskt palazzo en danska matstofu.

Staðurinn á sér langa hefð í Kaupmannahöfn Það eru 22 ár liðin frá því Era Ora opnaði fyrst dyr sínar á Torvegade 62. Eigendurnir eru Elvio Milleri og Edelvito Santos sem eiga ættir sínar að rekja til Toskana. Maturinn á hinum upphaflega Era Ora var hágæða ítalskur heimilismatur en sú stemmning var endurvakin í fyrra er eigendur Era Ora opnuðu staðinn L’Altro á Torvegade 62 (pöntunarsími 0045 32545406).

Á Era Ora er hins vegar boðið upp á stórkostlegar ítalskar veislur sem eiga sér fáa líka. Það þarf ekki sínu að panta matinn, hann er fyrirfram ákveðinn og einungis einn matseðill í boði, sérvalinn á hverjum degi eftir því hvaða hráefni eru tiltæk. Maður sest bara við borðið og nokkrum mínútum síðar er búið að hella freyðivíni í glas og bera fram fyrsta smakkið, sem í okkar tilviki var Bocconcino-polenta með lúðubita og steinseljusósu.

Eina ákvarðanirnar sem maður þarf sjálfur að taka er hvort maður hyggist panta vín af vínseðlinum eða fá þau sérvöldu vín sem vínþjónn Era Ora hefur valið með hverjum rétti. Ég mæli sterklega með því en þar eru einnig tveir kostir í boði, annars vegar yngri og léttari vín og hins vegar þroskaðri þungaviktarvín.

Alls verða réttirnir sextán, ef maður tekur allan pakkann og fær sér ostana á undan eftirréttunum. Maður stendur hins vegar ekki á blístri að lokinni máltíð – þótt óneitanlega standi maður heldur ekki upp svangur – þar sem stærð réttana er löguð að fjölda þeirra og í mörgum tilvikum einungis um einn munnbita að ræða.

Þeir eru allt frá því að vera ágætir í að vera frábærir. Fyrst koma átta antipasti, litlir smáréttir, flestir bornir fram á fötum með bita á mann. Til dæmis skötuselur vafinn í eggaldin með vorlauk og strengjabúnasúpa (zuppa di fagiolini) með köldu þorsksalati. Einnig fékk ég hóstarkirtil (sweetbread), steiktan í raspi á gúrkubeði með gulrótarsósou. Unaðslegur réttur, rétt eins og akurhænubitarnir sem höfðu verið eldaðir í acacia-hunangshjúp og komu með klettasalati eða þá andarbringurnar með gufusoðnu epli og jerúsalem-ætiþistlum. Vínin heldur ekki af verri taginu eða Friuli-vínði Capo Martino 1997 frá Jermann og Granato Teroldego 1995, Trentino-vín frá Foradori.

Einn besti rétturinn að mínu mati var annar Primi Piatti-rétturinn, Orecchiette-pasta (sem eru lítil pasta-eyru algeng á Suður-Ítalíu) með graskerssósu og Guanciale en það er mjög eftirsótt tegund af ítölsku beikoni, sem unnið er úr kjötinu úr kjálkum eða kinnum svína. Ekki spillti fyrir að fá Barolo Bricco Rocche 1989 frá Ceretto með.

Guanciale kom aftur við sögu í öðrum af Secondi Piatti-réttunum en þá langtímasoðið með sveppum og villtum kryddjurtum ásamt glasi af Casenuove delle Cerbaie Brunello di Montalcino 1990.

Ostarnir voru fimm bitar hver og einn framreiddur ásamt sætu meðlæti, hunangi eða ávaxtamauki, stórkostlegr sametningar og í eftirrétt var fyrst boðið upp á Sorbettino úr ástaraldinog þá Bavarese úr mango með balsamico-frauði.

Era Ora er ekki ódýr staður. Ef tekin er stærsti matseðillinn og betri vínseðillinn með er reikningurinn kominn í 2.100 danskar krónur á haus og er þá kaffi ekki innifalið. Það svíður í budduna en er samt þess virði. Þetta er einstök matarupplifun. Seðlarnir eru svo minni og verðið þar af leiðandi lægra í hádeginu og á góðum dögum má sitja úti í garði staðarins.

Það er engin tilviljun að Era Ora er eini ítalski veitingastaðurinn í norðurhluta Evópu sem Michelin veitir stjörnu. Stórkostlegur matur, góð þjónusta og fallegt umhverfi.

 

Restaurant Era Ora
www.eraora.dk
Overgaden neden Vandet 33B
Borðapantanir: 0045 32 54 06 93

Deila.