Mars og Venus

Það er líklega vart hægt að hugsa sér ólíkari staði en Hamborgarabúlluna og matstofuna Maður lifandi. Það eina sem þessir staðir eiga sameiginlegt er að þeir eru „skyndibitastaðir“ í þeirri merkingu að ekki þarf að bíða lengi eftir matnum og ekki þarf langan tíma til að borða hann. Alla rétti er sömuleiðis hægt að taka með sér heim eða í vinnuna og í báðum tilvikum eru staðirnir orðnir að eins konar „keðjum“ þ.e. nokkur útibú eru starfrækt.

Að öðru leyti eru þeir andstæður. Og þó, kannski eiga þeir eitt enn sameiginlegt, þeir standa sig báðir með prýði í sínu hlutverki.

Það voru nokkur tíðindi er Hamborgarabúllan var opnuð við Geirsgötu um páskahelgina 2004. Segja má að Tómas Tómasson eða Tommi sé guðfaðir íslenska hamborgarans. Margir hafa eflaust snætt sinn fyrsta hamborgara á sínum tíma í Tommaborgurum við Lækjargötu en Tommaborgarar urðu smám saman að fyrstu alíslensku hamborgarakeðjunni. Það sama virðist vera að gerast með nýjasta afkvæmi hans – Hamborgarabúlluna – en hana er nú víðar.

Hin eina sanna Hamborgarabúlla er hins vegar sú upprunalega við Geirsgötu og hún stendur svo sannarlega undir nafni. Húsið er með þeim sérkennilegri í Reykjavík og var upprunalega byggt sem vigtarhús og kaffistofa fyrir höfnina. Þarna voru lengi reknar kaffihús en smám saman fór húsið í niðurníðslu og var vægast sagt í hrörlegu ástandi er því var breytt í hamborgarastað. Vigtarhúsið gamla er friðað og hefur fengið að halda sér að mestu í upprunalegri mynd. Gólfið er gróft og allar innréttingar einfaldar og um margt sérstakar – t.d. „jólaskreytingaljósin“ í loftinu sem mynda eins konar stjörnuhimin yfir gesti.

Hamborgarabúllan er sannkallaður amerískur „diner“ og stemmningin einstök. Það er frekar dimmt og drungalegt í þröngu rýminu, steikingarlyktin megn í loftinu og brakið af hamborgurum á pönnunni keppir við háværa tónlistina. Tónlistarvalið er saga út af fyrir sig, þegar inn er komið er kannski verið að spila jazz, næsta lag er með bítlunum, þá kemur brasilískur samba og að því búnu eitthvað sem hefði getað sómað sér sem framlag Þjóðverja í Eurovision fyrir 2-3 áratugum.

Matseðillinn er einfaldur – lítill, stór eða tvöfaldur hamborgari og franskar og sósa með. Nýlega bættist einnig við ein af samlokunum vinsælu frá Hard Rock-tímabili Tómasar.

En í þessum einfaldleika felst snilldin. Þetta er staður sem býður upp á pottþétta, ramm-ameríska hamborgara. Basta og búið. Brauðið, sem oft er veikasti hlekkur íslenskra hamborgara, er fínt og á borgaranum kál, tómatur, tómatsósa, sinnep og majonnes. Ostur ef menn kjósa en hann er að mínu mati það síðsta á borgaranum.

Tommi hefur með Hamborgarabúllunni sannað á ný að engum er hægt að treysta betur fyrir borgaranum en honum.

Á Manni lifandi er hins vegar gengið inn í aðra veröld. Heilsusemin æpir á mann. Í versluninni er hægt að kaupa alls konar heilsusamlegan og lífrænan varning, staðurinn er bjartur og ljós. Hægt er að kaupa margvíslega rétti – í boði er salatbar (einn sá besti á landinu)  en einnig tilbúnir réttir til að kippa með sér, bökur og svo auðvitar réttur dagsins.

Styrkur Maður lifandi er fjölbreytnin og frábær hráefni. Matargerðin er alla jafna spennandi, réttirnir bragðmiklir og kokkarnir hika ekki við að hafa bragð af matnum með frumlegri notkun krydda. Stundum eru réttir dagsins ættaðir frá Evrópu, aðra daga rómönsku Ameríku, stundum eru afrísk eða asísk áhrif áberandi. Á diskinum er ávallt góð blanda af heitu og köldu, stökku og mjúku, baunum, grjónum, hnetum, ávöxtum og margvíslegu grænmeti og það verður að segjast eins og er að ég hef aldrei verið óánægður með matinn.

Ekki síst er ágætt að þetta er ekki hreinræktaður grænmetisstaður – stundum er t.d. kjúklingakjöt í réttunum.

Eitt af því sem vakið hefur athygli mína er hversu kynjaskiptingin er ólík á þessum tveimur stöðum. Á Manni lifandi eru konur alla jafna í miklum meirihluta en á Hamborgarabúllunni eru karlar ríkjandi. Þetta endurspeglast einnig í því lesefni sem í boði er fyrir gesti. Glanstímarit liggja á víð og dreif í Manni lifandi en á Búllunni er hægt að glugga í gömul dagblöð og þykkan doðrant sem ber heitið „The World’s Best Pub Jokes“ eða bestu pöbbabrandarar veraldar – bæði bindin.

Í nýlegri heimsókn á Hamborgarabúlluna var engin kona meðal gesta framan af en úr því rættist þó um það leyti er ég var að yfirgefa staðinn. Það reyndist hins vegar vera erlendur ferðamaður að leita að sushi-staðnum í nágrenninu.

 

 

Hamborgarabúllan
Geirsgötu 1
Traustir borgarar í sérstæðu umhverfi
Stór ostborgari, franskar og sósa kosta um 900 krónur

 

 

Maður lifandi
Borgartúni 24
Fjölbreytt og bragðgott heilsufæði í björtu og þægilegu umhverfi
Réttur dagsins á 1.250 krónur og tíunda skiptið frítt ef klippikort er notað

 

Deila.