Spænsk vín í brennidepli á Fenavin

Annað hvert ár er stærsta vínsýning Spánar haldinn í maímánuði í borginni Ciudad Real í héraðinu La Mancha suður af Madrid. Þar getur að líta góðan þverskurð af því sem vínframleiðendur Spánar bjóða upp á auk fjölda fyrirlestra og málstofa um margvísleg málefni er varða víniðnaðinn.

 Þeir áttatíu þúsund gestir sem sóttu Fenavin að þessu sinni gátu reynt þúsundir vína og í samanburði við aðrar vínsýningar var til dæmis til fyrirmyndar sérstakt “víngallerí” þar sem hægt var að ganga um stóran sal og velja úr á annað þúsund vína frá öllum svæðum Spánar.

 Það er margt spennandi að gerast í spænskri vínframleiðslu og ekki síst forvitnilegt að sjá hvernig stór vínræktarsvæði á borð við La Mancha eru að þróast. Flestir þekkja væntanlega spænsk rauðvín fyrst og fremst af Tempranillo-þrúgunni sem ræður ríkjum í mörgum héruðum en mér býður í grun að á næstu árum eigum við Íslendingar í auknum mæli eftir að kynnast þrúgunni Monastrell en mjög góð – og oftast alls ekki dýr – vín eru framleidd úr henni til dæmis á svæðinu Jumilla.

 Það endurspeglast nefnilega ekki í þeirri mynd sem flestir hafa af spænskum vínum að Monastrell er ræktuð á 107 þúsund af þeim rúmlega 600 þúsund hektörum sem vínviður er ræktaður á á Spáni en Tempranillo á “einungis” 70 þúsund.

 Þá eru hvítvín Spánar farin að sækja töluvert í sig veðrið og þá ekki einungis Albarino vín Galisíu heldur ekki síður vín úr þrúgunum Godello og Macabeo.

Samkeppnin fer harðnandi í vínheiminum ekki síst nú þegar kreppir að í efnahagsmálum um allan heim og baráttan um hylli viðskiptavinarins verður erfiðari og óvægnari. Spánverjar hafa einbeitt sér mikið að útflutningi á síðustu árum en heyra mátti að margir hafa áhyggjur af því að ekki hafi verið hugað nægjanlega vel að innanlandsmarkaðinu og uppfræða nýjar kynslóðir um matar- og vínmenningu Spánar. Þetta kom m.a. fram í fyrirlestri sem Pancho Campo – fyrsti og eini Master of Wine Spánverja – flutti á Fenavin. Raunar eru þetta svipaðar áhyggjur og heyra má í Frakklandi og á Ítalíu þar sem yngri kynslóðir sækja frekar í bjór og skyndibita í amerískum stíl en hefðbundna matarmenningu landsins.

 Einnig áttu sér stað athyglisverðar pallborðsumræður um hvort raunverulega væri munur á Nýja heiminum og þeim gamla eða hvort að einungis væri um mismunandi markaðssetningu að ræða. Voru skoðanir mjög skiptar…

 

 

Deila.