Sikileyskt spaghetti með eggaldin

Pasta er mikið borðað á Sikiley rétt eins og annars staðar á Ítalíu. Einn vinsælasti pastaréttur eyjarskeggja er Spaghetti con Melanzane eða spaghettí með eggaldin. Þessi réttur er til í margvíslegum útgáfum en hér er ein klassísk og fín. Þetta er mjög einfaldur og bragðgóður réttur sem hentar vel fyrir sumarmáltíðir á pallinum.

 Þetta þarf í réttinn:

  •  2 eggaldin
  • 1 flösku af ítalsku tómatamauki (Passata)
  • Væna lúku af ferskum basilblöðum, söxuð
  • 500 g spaghetti
  • Parmesan-ost
  • Chilipipar
  • Salt og pipar
  • Ólívuolía

Skerið endana af eggaldininu og bútið það síðan niður í bita sem eru um 3 sm á lengd og 1 sm á hæð og breidd.

 Hitið ólívuolíu í djúpri pönnu, dýptin á olíunni þarf að vera um 1-2 sm. Hún þarf að vera mjög heit en ekki þó að fari að rjúka úr henni. Steikið nú eggaldisbitana (líklega þarf 2-3 umferðir) þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir. Setjið þá til hliðar og þerrið á eldhúspappír.

Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.

Hellið tómatasósunni á pönnu og hitið ásamt klípu af sterkum chilipipar (best er ef þið eigið piparflögur) og söxuðum basillafunum.  Bætið eggaldinbitunum út í þegar sósan er orðin heit.

Bætið nú spaghettíinu saman við sósuna. Skreytið með söxuðu basil. Berið strax fram með rifnum parmesan.

Vínið með má gjarnan vera frá Sikiley og mæli ég með rauðvíninu Planeta La Segreta með þessum rétti. 

 

 

Deila.