Þetta er sígildur og bragðmikill marokkóskur réttur þar sem saffran, sítrónur og ólívur stjórna bragðinu. Hæg eldun í langan tíma mýkir sítrónusneiðarnar og leyfir þeim að renna saman við annað hráefni. Best er að elda réttinn í þykkum potti, helst steyptum járnpotti ef þið eigið slíkan.
Þetta er hráefnið sem við þurfum:
- 1 kjúklingur, bútaður í átta bita
- 1 sóló-hvítlaukur eða 3 hefðbundnir hvítlauksgeirar, saxaðir
- 1 lítið búnt steinselja
- 1 lítið búnt kóríander
- 1 stór laukur, gróft saxaður
- 1/2 tsk saffran
- 1/2 tsk pipar
- 1 tsk salt
- 2 sítrónur, skornar í báta
- 1 dl grænar og steinlausar ólívur, skornar í tvennt
- 1 dl ólívuolía
- 1 dl vatn
- 1 pakki Couscous
Hitið olíuna í pottinum. Bætið við lauk, hvítlauk, steinselju, kóríander, saffran, salti og pipar. Hitið í olíunni í nokkrar mínútir og hrærið vel í. Bætið kjúklingabitunum við, steikið í nokkrar mínútur í viðbót og snúið kjúklingabitunum reglulega þannig að kryddið þekji þá alveg. Bætið við vatninu og setjið sítrónubáta ofan á allt saman. Látið malla undir loki í einn og hálfan til tvo klukkutíma á mjög vægum hita. Snúið kjúklingnum reglulega.
Takið loks kjúklinginn uppúr og haldið heitum. Hækkið nú hitann og sjóðið niður vökvann í pottinu þar til hann er orðinn að þykkri sósu. Bætið við ólívunum og hrærið vel í á meðan þær hitna í gegn.
Hitið couscous skv. leiðbeiningum. Bætið við msk af smjöri og hrærið saman við. Setjið couscous-ið á stórt og fallegt fat. Setjið kjúklingabitana ofan á og hellið loks sósunni úr pottinum yfir.
Bragðmikið rauðvín frá Suður-Evrópu hentar vel, t.d. Chateau la Sauvageonne.