Þessi uppskrift sem við fengum frá Chandriku Gunnarsson á Austur-Indíafjelaginu kemur frá Kerala-héraði í suðvesturhluta Indlands. Strandlengja Kerala er löng og um héraðið renna jafnframt fjölmargar ár og fljót. Fiskur og aðrir sjávarréttir eru því mjög algengir í matargerð Kerala sem annars einkennist af mikilli og fjölbreyttri kryddnotkun.
Hér er fiskurinn eldaður í bananalaufi, sem gefur í sjálfu sér ekki mikið bragð heldur gegnir því hlutverki að loka fiskinn inni ásamt sósunni. Bananalauf er oft hægt að fá í verslunum sem sérhæfa sig í asískum matvælum. Ef þið finnið ekki bananalauf gerir álpappír sama gagn – hann er bara ekki jafnflottur.
- 400 g laxaflak
- 200 g rauðlaukur, saxaður
- 250 g tómatar, saxaðir
- 1 sm engiferrót, flysjuð og fínsöxuð
- 6 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- 1 grænn chili-pipar, saxaður
- ½ tsk túrmerik
- 1 tsk rautt chili-duft
- 2 tsk kóríanderkrydd
- 15 ml edik
- 25 ml olía
- nokkur curry-lauf (má sleppa)
- salt
- bananalauf
Blandið saman ¼ tsk túrmerik, ½ tsk chili-kryddi og smá salti. Veltið laxinum upp úr kryddblöndunni og látið hann marinerast í hálfa klukkustund.
Hitið 10 ml af olíu á pönnu og steikið fiskinn í eina mínútu á hvorri hlið. Geymið.
Hitið afganginn af olíunni. Bætið engifer, hvítlauk og curry-laufum út í. Steikið í 3-4 mínútur. Bætið þá græna chilipiparnum og rauðlauknum út á pönnuna og steikið þar til laukurinn fer að taka á sig gullinbrúnan lit. Bætið túrmerik-kryddinu, chili-kryddi og kóríander-kryddi út í. Látið malla í tvær mínútur.
Setjið nú söxuðu tómatana út á pönnuna og eldið í 7-8 mínútur en þá er ediki og salti bætt út í.
Setjið helminginn af sósunni á bananalaufið, setjið laxflakið ofan á og hellið loks afganginum af sósunni yfir. Brjótið nú laufið saman svo úr verði lokaður böggull. Steikið hann á pönnunni í um tíu mínútur, snúið reglulega við.
Berið fram með Basmati-grjónum og stökku rifnu grænmeti, t.d. gulrótum og rauðrófum.
Með þessu hentar Chardonnay frá Nýja heiminum vel. Ég mæli með til dæmis Wildcard Chardonnay, Benchmark Chardonnay eða Catena Chardonnay.