Quickes Cheddar

Quickes er gamalgróin ostagerð í Devon í Bretlandi. Quicke-fjölskyldan hefur búið í héraðinu frá árinu 1530 og fékk á sínum tíma gjöfular lendur frá Hinrik áttunda Englandskonungi. Nú er það Mary Quicke sem heldur utan um búið. Þekktasta afurð hennar er Cheddar-osturinn sem á dögunum var valinn besti Cheddar-ostur Bretlands þegar the British Cheese Awards voru veitt. Frá þessu er m.a. greint í The Times og segir að Quickes framleiði „framúrskarandi þroskaðan og hefðbundinn Cheddar sem er á litinn eins og nýtt smjör með angan sveit og rjómakennda, sæta og kristallíseraða áferð.“

Cheddar-osturinn er framleiddur úr gerilsneyddri kúamjólk sem er mótuð í 24 kílóa vafin stykki en þroskaferlið þar til hann er tilbúinn til neyslu tekur fjórtán mánuði.

Eirný í Búrinu lét okkur svo hafa þessu fínu uppskrift:

 

Quickes cheddar og lauk skonsur

“Enskar” skonsur eru einskonar bollur sem eru mjög einfaldar og fljótlegar að búa til og er notast við lyftiduft í stað gers. Galdurinn við þær er að hnoða ekki deigið of mikið því þá geta þær orðið frekar harðar. Einnig er hægt að setja 100 gr af steiktum beikonbitum í stað lauksins

225 gr Hveiti

1 ½ tsk Lyftiduft

60 gr smjör ( ískalt)

80 gr Quickes cheddar ostur

1 Stór laukur- skorin í þunnar sneiðar

100gr sýrður rjómi eða hreinn jógúrt

100ml Mjólk – köld

1 tsk sinnep ( Enskt eða Dijon)

Byrjið á því að skera laukinn í hálft og síðan hvern helming í eins þunnar sneiðar og hægt er. Brúnið laukinn á pönnu á lágum hita í ca 8-10 mínutur. Setjið laukinn til hliðar og látið kólna.

Sigtið hveiti og lyftiduft í stóra skál. Skerið kalt smjör í litla teninga og með hröðum höndum myljið saman hveiti og smjöri þar til þetta líkist brauðmylsnu. Míkilvægt er að hætta áður en smjörið fer að hitna og mýkjast. Að þessu loknu er cheddar ostinum bætt við og köldum lauknum.

Hrærið saman mjólk, sýrðum rjóma og sinnep og blandið saman við hveitiblönduna. Þegar deigið er komið saman er það flatt út í 3cm þykka köku og síðan skorið í 6 hluta.

Setjið á bökunarplötu og penslið með mjólk eða stráið yfir smá hveiti. Skonsurnar eru síðan bakaðar í 8-10 mínutur við 200gr hita. Best er að bera þær fram heitar eða allavega borða þær samdægurs.

 

Deila.