Bjórar sem þú verður að smakka á Maine Beer Box Festivalinu á laugardaginn

Bjórhátíð Maine Beer Box er um helgina og því ekki úr vegi að taka út hvaða bjóra þarf að leggja áherslu á að smakka. Eins og fram hefur komið eru 78 bjórar í boði frá Maine og gríðarlegur fjöldi íslenskra bjóra einnig, en einhverjir bjórar verða frumsýndir á hátíðinni.

Hér eru nokkrir afar áhugaverðir bjórar sem verða á hátíðinni:

Bissell Brothers The Substance Ale

Substance Ale er „New England“ IPA af bestu gerð. Eftirsóttur bjór og fær 99/100 á Ratebeer og 95/100 á Beer Advocate

Baxter Wicked Dark

Áfengismesti bjór hátíðarinnar og aðeins einn af tveimur Imperial Stoutum á hátíðinni. Þessi bjór kemur út einu sinni á ári og er einn sá besti frá Baxter.

Maine Beer Peeper

Maine Beer Company hafa í nokkur ár verið eitt besta og áhugaverðasta brugghúsið í Maine. Þekktir fyrir að selja hratt upp og gera ótrúlega góða Pale Ale og IPA bjóra. Peeper er einn vinsælasti bjórinn þeirra, þurr og svalandi Pale Ale sem hefur verið hátt metinn á Ratebeer, BeerAdvocate og Untappd.

Foundation Riverton Flyer

Foundation er eitt af stærri nöfnunum á hátíðinni og hefur á skömmum tíma orðið eitt það eftirsóttasta í Maine. Flyer er Pilsner, sem sækir fyrirmynd sína í hina klassísku evrópsku pilsner bjóra. Vel gerðir Pils bjórar hafa verið að fljúga hátt innan bjórmenningar Bandaríkjanna og því áhugavert að fá að smakka útgáfu Foundation.

Austin Street Patina Pale

Austin Street er lítill bruggpöbb í Portland í Maine. Patina Pale er afar hátt metið þurrhumlað Pale Ale sem ógjörningur er að nálgast utan Portand. Citra humlar leika aðalhlutverkið í þessum svalandi bjór sem eflaust verður frábær á bryggju Eimskips.

Allagash White

Allagash er rótgróið brugghús og hefur verið meðal fremstu brugghúsa austurstrandar Bandaríkjanna í mörg ár. Þeir hafa sérhæft sig aðallega í belgískum bjórstílum og tekist mjög vel til. Allagash White hefur verið bruggaður frá stofnun brugghússins árið 1994 og er talið einn besti belgíski hveitibjór í heimi. Hann er fáanlegur víða í Bandaríkjunum og verið einn vinsælasti „craft“ hveitibjórinn um árabil.

Kex Brewing Send Nudes

Kex Brewing er hafa verið að gera garðin frægan á þessu ári og er eitt af íslensku brugghúsunum á hátíðinni. Þeir senda frá sér Session IPA sneisafullan af Citra, Mosaic og Equinox humlum. Verður áhugavert að smakka.

Fore River Estuary

Fore River er áhugavert örbrugghús frá Portland. Brugghúsið hefur verið að prófa sig áfram með súra bjóra og  New England IPA. Estuary er afar gruggugur og forvitnilegur Double IPA. Fore River mæta einnig með hindberja súrbjór sem verður einnig afar forvitnilegur.

 

Deila.