Súkkulaðinámskeið á Holti

Það er töluverður munur  á þeirri matreiðslu sem við stundum í heimahúsum og þeirri sem iðkuð er á veitingahúsum. Því er það ávallt spennandi að fá tækifæri til að fá innsýn í reynsluheim matreiðslumeistaranna og kynnast betur þeim aðferðum og “trixum” sem þeir nota.

Hótel Holt hóf síðastliðinn vetur að bjóða hópum inn í eldhús til sín á matreiðslunámskeið og taka þátt í að búa til margréttta máltíð að hætti hússins. Þessi námskeið slógu í gegn og eru nú aftur í boði nú í októbermánuði.

Þessu til viðbótar hefur verið ákveðið að halda sérstök súkkulaðinámskeið í nóvember en það er mikil listgrein að breyta súkkulaði í glæsilega eftirrétti.  Það þarf að huga að mörgu s.s. því hitastigi sem vinna á súkkulaðið við. Farið verður yfir þessi grundvallaratrið,  sýnt hvernig á að laga og fylla nokkrar tegundir af eðalsúkkulaði og útbúa konfekt með fyllingu á einfaldan og huggulegan hátt.

“Við ætlum líka að kenna fólki að baka ekta súkkulaðiköku sem svíkur engan,” segir Rósbjörg Jónsdóttir hjá Hótel Holti en afrakstur vinnunar tekur nýútskrifaða súkkulaðigerðarfólið með sér heim. “Fólki býðst svo að kaupa með sér Valrhona-súkkuklaðipakka sem inniheldur allt sem þarf til súkkulaðigerðar heima fyrir. Einnig er hægt að kaupa hjá okkur fyrir hópa eða klúbba sem vilja endurtaka námskeiðin heima,” segir Rósbjörg.

Í lok námskeiðsins snæða þátttakendur kvöldverð í Listasafninu á Hótel Holti þar sem farið verður yfir helstu atriði dagsins og möguleiki er að spyrja matreiðslumeistarana spjörunum úr.

Námskeiðin verða haldin 3. 10. 17. og 24. nóvember. Verð námskeiðsins er 13.900 krónur á mann en auk sjálfs námskeiðsins er þá innifalin mappa með uppskriftum og leiðbeiningum, allt hráefni, rauðvínssmakk og léttur kvöldverður í lok námskeiðsins.

Nánar er hægt að kynna sér námskeiðin með því að smella hér.

Deila.