Willm Riesling 2008

Vínhúsið Willm er á vínleiðinni eða Route du vin á milli Strassborgar og Colmar í Alsace í Frakklandi, nánar tiltekið í smábænum Barr. Willm-fjölskyldan, sem þá rak veitingahús í Barr, stofnaði víngerðina 1896 og náði fljótt undraverðum árangri í útflutningi. Willm var orðinn helsti útflytjandi Alsace-vína til Bandaríkjanna þegar bannárin skullu á. Enn í dag er útflutningur mikilvægur hluti af starfseminni og Willm er í hópi þeirra vínhúsa sem er hvað fyrirferðarmest í útflutningi til Norður-Ameríku og Evrópu.

Willm Riesling 2008 er ungt með ferskri og bjartri sítrusangan, aðallega sítrónu en einnig hvít blóm og mildri apríkósu. Uppbyggingin er öll fínleg, vínið þurrt og matvænt.

Þetta vín hentar með ýmsu, enda hvít Alsaca-vín með bestu matarvínum sem til eru. Skelfiskur, fiskur í sósu eða jafnvel kjúklingaréttir eru dæmi um mat sem þessi Riesling gæti smollið að. Reynið til dæmis með franska kjúklingapottinum okkar.

2.389 krónur

 

 

 

Deila.