Vín vikunnar

Það hafa margir víndómar bæst við undanfarna daga og því eru heil átta vín í vínum vikunnar að þessu sinni. Þau eru líka öll evrópsk, fjögur koma frá Ítalíu, þrjú frá Frakklandi og eitt frá Spáni.

Spænska vínið er mjög spennandi vín frá Alicante, sem er víngerðarsvæði sem hefur verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum en er þó enn með þeim minnstu á Spáni. Einungis um 50 framleiðendur rækta þar vín. Vínið Mo 07 er kröftugt rauðvín úr þrúgunni Monastrell en framleiðandinn, Bodegas Sierra Salinas , er einmitt eitt hinna nýju spennandi fyrirtækja sem hafa sprottið upp í Alicante síðasta áratuginn.

Frá Suður-Frakklandi kemur rauðvínið Perrin Reserve 2007, öflugt Cotes-du-Rhone úr þrúgun Grenache, Carignan og Syrah. Hvítvínið Lamothe Vincent 2007 er hins vegar Bordeaux-vín frá svæðinu Entre-deux-Mers.

Þriðji Frakkinn er einnig hvítur frá hinum virta framleiðanda Hugel í Alsace í Norður-Frakklandi. Hugel Riesling 2008 er virkilega vandaður Riesling en árið 2008 var afbragðs ár í Alsace, ekki síst voru kjöraðstæður fyrir Riesling-þrúguna.

Hvítvínið Leonardo Bianco er ítalskt kassavín frá Toskana. Milt og þægilegt. Þaðan koma líka rauðvínin Chianti Barone Ricasoli 2007 og Brolio Chianti Classico 2007. Árgangurinn 2007 er með þeim betri í mjög langan tíma í Toskana og bæði vínin koma úr smiðju hinnar þekktu Ricasoli-fjölskyldu.

Fjórði Ítalinn og fyrsta fimmstjörnuvínið er loks Villa Arvedi Amarone 2003 frá framleiðandanum Bertani. Öflugt en jafnframt fínlegt rauðvín sem smellur að íslenskri villibráð, t.d. rjúpum eða gæs.

Smellið á nafn vínanna til að lesa nánar um þau.

Myndskreyting vikunnar er frá Brolio-kastala í Toskana.

 

Deila.