Trivento Malbec

Þriggja lítra umbúðirnar eru ansi stór hluti íslenska vínmarkaðarins og sem betur fer fjölgar ágætum vínum sem í boði eru í beljunum. Það ræðst ekki síst af því að markaðir í Norður-Evrópu, ekki síst Norðurlöndunum, hafa fallið fyrir þessum umbúðum og þeir gera kröfur sem framleiðendur verða að mæta.

Trivento Malbec er argentínskt rauðvín úr Malbec-þrúgunni. Hún er upprunalega frá suðvestur-Frakklandi en er orðin að einskonar þjóðarþrúgu Argentínu. Angan vínsins einkennist af sætum og krydduðum plómuávexti, heitum og þroskuðum. Rauð og sultuð ber bætast við í munni, kirsuber og hindber. Mild tannín og þægileg áferð. Einfalt en ljúft vín.

4.999 krónur eða um 1.250 krónur miðað við 75 cl. Óneitanlega mjög gott verð fyrir gæði sem tryggir víninu þriðju stjörnuna.

 

Deila.