Raimat Abadia 2006

Þetta rauðvín frá Costers del Segre, sem er lítið vínhérað í Katalóníu á Spáni, er eitt þeirra sem fyrir skömmu var valið eitt af bestu vínunum í sölu á Bretlandseyjum undir tíu pundum af helsta víntímariti Bretlands. Enda Raimat með framsæknustu vínhúsum þessa hluta Spánar. Þetta er mjög athyglisverð þrúgublanda þar sem Cabernet Sauvignon er í aðalhlutverki (45%) en er blandaður saman við Merlot, Tempranillo og Syrah.

Raimat Abadia Crianza 2006 er vel gert og reffilegt vín. Angan af bökuðum plómum, vanillusykri og vindlatóbaki. Í munni mjúkt og bjart með eik sem dansar um allt en verður aldrei uppáþrengjandi.

Reynið með Manchego-osti eða spænskri skinku. Eða af hverju ekki með svínakótilettunum okkar með beikon- og rjómaspínati.

1.999 krónur. Flott kaup, líka undir tíu pundum á Íslandi!

 

Deila.