Villibráðin í öndvegi

Það er villibráðartíð núna. Kjötvinnslumenn eru á fullu við að úrbeina hreindýrin og fréttir berast af góðri veiði á fuglum víða um land. Í Perlunni er rík hefð fyrir hlaðborðum og þar hefur undanfarnar vikur verið boðið upp á hið árlega villibráðarhlaðborð þar sem gefst tækifæri til að bragða á margvíslegri villibráð jafnt innlendri sem erlendri.

Margir elda hins vegar sjaldan villibráð heima þótt þetta sé með einhverju besta íslenska hráefni sem hægt er að fá á Íslandi. Sumir eru hikandi vegna þess að þeir eru óvanir en stundum eru praktískar ástæður fyrir því á borð við þær að ekki eru skotveiðimenn í nánustu fjölskyldunni. Það eru því margir sem snæða aðallega villibráð á veitingahúsum og er það ein skýringin á vinsældum villibráðahlaðborða.

Það er líka sterk hlaðborðsmenning á Íslandi og virðast þau alltaf jafnvinsæl ekki síst þegar til dæmis vinnustaðahópar taka sig saman og fara út að borða. Þetta form hentar vel fyrir slík og eftir því sem maður heyrir úr veitingahúsageiranum eru til dæmis pantanir á jólahlaðborðin síst minni og oft meiri en þær hafa verið undanfarin ár.

Elmar Kristjánsson, yfirmatreiðslumaður í Perlunni, segir þá stefnu hafa verið tekna að hafa ákveðna fjölbreytni í boði til viðbótar við villibráðina, enda sé það oft þannig þegar hópar komi eða fjölskyldur að einhverjir í hópnum vilji eiga kost á öðru en einungis villibráð. „Við bjóðum því upp á sitt lítið af hvoru, mikið af fiskréttum og grænmeti en einnig rétti á borð við sushi. Við þurfum að hugsa um þarfir svo margra og reynum að koma til móts þær.“

Einnig sé reynt að hafa mikla fjölbreytni í sjálfri villibráðinni og bjóða upp á hreindýr, villigölt, dúfu og fasana, svo dæmi séu nefnd. Þá sé stöðugt ríkari áhersla á að hafa sem mest af hráefninu íslenskt og nú séu til dæmis allir ostarnir sem boðið sé upp á íslenskir.

Elmar segir marga bændur vera farna að huga að því að bjóða upp á nýjar og spennandi vörur, sem sé jákvætt því innfluttar vörur verði stöðugt dýrari fyrir Íslendinga. „Það er líka mikið af villibráð á markaðinum núna, ekki síst gæs og hreindýr, og greinilegt að stofnarnir eru sterkir. „

Hann segir útlendinga sýna íslensku villibráðinni mikinn áhuga og ekki síst komi stórir hópar útlendinga í miðri viku til að bragða á henni.

„Aðsóknin er svipuð og hún hefur verið og ef eitthvað er þá er það að aukast að barnafólk komi með alla fjölskylduna. Ef menn vilja fá sem mest fyrir peninginn þá eru hlaðborðin auðvitað málið.“

Deila.