Grísasteik að hætti Flórensbúa

Ítalir borða mikið af svínakjöti og elda það oft á lystilegan hátt. Hér er dæmi um hvernig svínakjöt er gjarnan matreidd í Toskana. Best er að nota grísahrygg á beini. Ef hann er einungis til úrbeinaður þá er hægt að svindla með því að kaupa nokkur rif úr sparerib og elda með þar sem beinin eru mikilvæg fyrir kraftinn sem myndar sósuna.

1 kg svínahryggur á beini

6 hvílauksrif, niðursneid

6 matskeiðar af söxuðu rósmarín

1 lítri kjúklingasoð

1 sítróna

4 negulnaglar

salt og pipar

Takið 2/3 af rósmaríninu og blandið saman við saxaða hvítlaukinn og smá ólífuolíu. Skerið djúpar raufar í steikina og troðið hvítlauks- og rósmarínblöndunni ofan í þær. Saltið steikina og piprið og setjið í ofnfast form. Best er að nota fat sem má fara bæði í ofn og á hellu/gas. Steikið í 50 mínútur við 200 gráðu hita.

Takið kjötið úr ofninum, leyfið að kólna aðeins og skerið það af beinunum í heilu lagi. Vefjið kjötið í álpappír og haldið heitu.

Skerið beinin niður og setjið aftur á fatið ásamt sjóðheitu kjúklingasoðinu. Látið malla við miðlungs hita í um hálftíma. Síið beinin frá, bætið safanum úr sítrónunni við ásamt afganginum af saxaða rósmaríninu og negulnöglunum. Sjóðið áfram við miðlungs hita í 5-10 mínútur. Bragðið á soðinu, ef sítrónan er enn of ríkjandi er ágætt að setja 1-2 msk af smjöri útí.

Hitið kjötið á ný og hellið vökvanum sem hefur lekið úr því í sósuna. Skerið kjötið niðiur í sneiðar og hellið sósunni yfir.

Gott er að bera fram með þessu kartöflur steiktar í smjöri og fersku rósmarín eða þá góðri kartöflumús.

Með þessu að sjálfsögðu Toskana-vín, s.s. Brolio eða Isole e Olena.

 

 

Deila.