Confini Chianti Classico

Stundum hrekkur maður svolítið við og þetta var eitt af þeim skiptum. Confini Chianti Classico er nefnilega í hinum gamla, klassíska stíl Chianti Classico-vína sem var við lýði þegar maður kynntist þessum vínum fyrst en hefur síðan verið að víkja fyrir „alþjóðlegum“ straumum, franskri eik og víngerð í anda Bordeaux.

Hérna er hins veagr á ferðinni hreinræktaður, „ekta“ gamla-skóla-Chianti líkt og maður man eftir þeim. Og mikið var gott að endurnýja slík kynni og ekki síst að finna hvað slík vín smella vel að ítölskum mat, ekki síst ef tómatar eru eldaðir með.

Ávöxturinn í nefi sætur og þurrkaður allt að því sveskjukenndur eins og maður finnur stundum í Amarone en að auki svört telauf og meðalalykt og örlítil karamella úr eikinni. í munninum þungt og þétt, tannískt með, létt beisku og löngu bragði.

Reynið með tómatasúpunni frá La Primavera eða pasta með salsiccie og rósmarínsósu.

2.290 krónur

 

Deila.