Chapoutier Cotes-du-Rhone Belleruche 2007

Chapoutier er einhver traustasti framleiðandi Rhone-héraðsins í Frakklandi og vín hans eru alla jafna örugg og góð kaup. Það á ekki síst við um Belleruche sem er hefðbundið Cotes-du-Rhone en engu að síður mikið vín. Þó svo að það hafi hækkað sorglega mikið í verði líkt og önnur vín hér á landi stendur það enn fyllilega fyrir sínu.

Blandan í víninu er 80% Grenache og 20% Syrah og ræktunin lífræn eða „bíódýnamísk“ eins og önnur vín Chapoutier.

Belleruche 2007 er dökkt og kryddað með þétta og þunga angan af svörtum, þroskuðum berjum, sverskjum, reyk og jörð. Það hefur töluvert mikið boddí, með kröftugum en mjúkum tannínum. Sameinar vel hinn sveitalega sjarma Rhone-vínanna, afl og jafnframt verulega fágun. Með bestu vínunum í sínum flokki.

Reynið með svínakótilettum með beikon- og rjómaspínati eða lambakjöts-ragú.

 

2.464 krónur

 

Deila.