Josep Drouhin Laforet Pinot Noir 2007

Vandinn með Búrgund er að svæðið er lítið og skikarnir sem bestu vínin eru ræktuð á eru örfáir hektarar ólíkt hina stóru víngörðum Bordeaux þar sem hvert Chateau hefur yfir að ráða tugum hektara. Þar sem Búrgundarvínin eru með þeim eftirsóttustu í heimi gerir þetta þau jafnframt að þeim dýrari.

Það er því oftar en ekki sem ódýr Búrgundarvín valda miklum vonbrigðum, ekki síst vegna þess að þrúgan Pinot Noir sem er sú eina sem notuð er getur verið hrikalega erfið og duttlungafull í ræktun. Vilji menn njóta góðra en jafnframt ekki þurfa að leggja bílverð á borðið verður því að vanda valið vel. Best er yfirleitt að veðja á mjög litla en góða framleiðendur eða þá traustu meðalstóru húsin sem tryggja ávallt bestu mögulegu gæði fyrir verð. Drouhin er í síðari hópnum og hefur unnið sér nafn sem öruggur gæðastimpill á Búrgundarvín, jafnvel þegar einungis er um hefðbundin „Bourgogne générique“ er að ræða.

Laforet 2007 þarf smá tíma til að opna sig en þá birtist ljúfur rauður berjaávöxtur með hindberjum, jarðarberjum og kryddum, jafnvel má greina smá cummin. Í munni hefur vínið meðalþyngd með sýru og tannínum í góðu jafnvægi, ekki afgerandi en springur nokkuð út með mat.

Reynið t.d. með frönskum estragonkjúkling.

2.398 krónur.

 

 

Deila.