Mezzacorona Chardonnay 2008

Þetta hvítvín kemur frá Trento eða Trentino sem er fjallahérað í Norður-Ítalíu sem Adige-dalurinn klýfur í tvennt, enn um hann liggur hinn sögulega samgönguleið Ítalíu við Norður-Evrópu. Vínin eru ræktuð á sléttunum við hliðar ítölsku Alpana.

Loftslagið er svalara á þessum slóðum en víðast hvar annars staðar á Ítalíu og því njóta norður-evrópskar hvítvínsþrúgur sín vel. Pinot Grigio og Pinot Blanco eru algengar en sú mest ræktaða er raunar franska þrúgan Chardonnay.

Mezzacorona er vínsamlag sem hefur getið sér gott orð bæði alþjóðlega sem á Ítalíu fyrir traust og tiltölulega ódýr vín þar sem hægt er að ganga að jöfnum gæðum vísum ár eftir ár. Þau sáust fyrst hér á íslenska markaðnum fyrir rúmum áratug og voru fyrst um sinn einungis fáanleg í veitingahúsinu Perlunni.

Mezzacorona Chardonnay 2008 er einfalt en frísklegt og vel gert hvítvín, græn epli og sítrus í nefi, örlítið grösugt, þurrt í munni með mildri sýru og þokkalegri lengd.

Fínt sem fordrykkur eða með gufusoðnum fiski.

1.699 krónur.

 

Deila.