Bava Barolo Castiglione Falletto 2000

Bava í Piedmont er framsækið fjölskyldufyrirtæki sem engu að síður heldur í hinar klassísku hefðir undir stjórn þriggja bræðra, þeirra Roberto, Guilio og Paulo en Bava-fjölskyldan hefur átt vínekrur sínar í grennd við þorpið Cocconato frá því á sautjándu öld.

Barolo-vínin, sem framleidd eru úr þrúgunni Nebbiolo, þurfa sinn tíma til að sýna allt það sem í þeim býr, og þetta vín er orðið um áratugargamalt og nokkurn veginn á toppnum. Árgangurinn 2000 var virkilega góður í Piedmont, líkt og víðast hvar í Evrópu, og því mikill fengur að hafa aðgang að víni sem þessu.

Liturinn er farinn að breytast úr dökkfjólubláu yfir í rautt og í nefi má finna þroskaeinkenni, ávöxturinn farinn að víkja fyrir jarðbundnari tónum, tjöru, leðri, þurrkuðum kirsuberjum og estragon. Tannínin enn til staðar en farin að mýkjast, kraftur vínsins enn undirliggjandi, þetta vín þolir bragðmikinn mat, en allt yfirbragðið orðið fínlegt og tignarlegt.

Vín fyrir villibráð eða kröftuga ítalska rétti á borð við Osso Bucco.

7.599 krónur

 

 

Deila.