Torres Mas La Plana 2004

Svarti miðinn frá Torres eða Mas La Plana er vínið sem segja má að hafi gert Miguel Torres heimsfrægan er það skákaði mörgum af þekktustu vínum heims í frægri smökkun skipulagðri af Gault-Millau á áttunda áratugnum.

Árgangarnir af Mas La Plana eru nú í kringum fjórða tuginn og þetta vín hefur fyrir löngu tryggt sig í sessi sem eitt af flaggskipum spænskrar víngerðar. Sumarið 2004 var mjög heitt á Spáni sem leynir sér ekki í þessu 100% Cabernet Sauvignon-víni, sem í stílnum er meira Napa en Bordeaux.

Átján mánuðir á frönskum eikartunnum leyna sér ekki í nefinu, þykk angan af reykelsi og vanillu, sultuðum dökkum berjum og plómum. Öflugt og tannískt í munni, með djúpum, krydduðum sólberjaávexti og langri endingu. Umhellið. Mun eldast vel í 5-10 ár.

Með villibráð, nautakjöti og önd, t.d. önd með rifsberjasósu

4.590 krónur

 

Deila.