Fullers Vintage Ale

Árgangsbjórar eru ekki algengir en þeir eru vissulega og einn sá þekktasti þeirra er Fuller’s Vintage Ale. Fuller’s í Chiswick í London getur státað af því að vera elsta brugghús Lundúna og sérhæfir sig í stórum og miklum bjórum. Ekkert lagersull hér.

Árgangsölið var fyrst bruggað fyrir jólin 1997 þegar bruggmeistarar Fuller’s ákváðu að gera eitthvað alveg sérstakt, sem myndi slá öllu öðru við. Bjórinn sló í gegn og hefur verið flokkaður sem einn af bestu bjórum Bretlands.

Örlítið ger er skilið eftir í hverri flösku þannig að bjórinn heldur áfram að þroskast og breytast og er þess vegna hægt að geyma hann í mörg ár líkt og um gott vín væri að ræða.

Fuller’s Vintage Ale 2009 er mikill bjór, 8,5% að styrkleika, seldur í númeruðum 500 ml. flöskum. Þrátt fyrir styrkleikann er hann ekki yfirþyrmandi og merkilega fínlegur. Hann er rauðbrúnn á lit með sætri angan, blöndu af malti, fíkjum og púðursykri, í bragði töluvert súkkulaði og beisk-sætt malt.

Best er að njóta þessa bjórs úr belgmiklu glasi, t.d. stóru rauðvíns- eða koníaksglasi, og hann má ekki vera of kaldur.

1.117 krónur flaskan.

Deila.