Budweiser Budvar

Flestum dettur líklega ekki Tékkland í hug þegar minnst er á Budweiser-bjór enda ber þekktasti bjór Bandaríkjanna það nafn. Það vita færri að Budweis er þorp í Tékklandi. Þorpið heitir á tékknesku České Budějovice. Saga Evrópu er hins vegar flókin og lengi var þetta svæði hluti af hinum þýskumælandi heimi og gekk þá undir nafninu Böhmen og þorpið var þekkt sem Budweis.

Bjórbruggun á sér ríka hefð í Tékklandi og bjórmenningin þar er djúpstæð og um margt lík þeirri þýsku. Bjór hefur verið bruggaður í Budweis um margra alda skeið og á nítjándu öld hófst innflutningur á honum til Bandaríkjanna. Það leiddi til þess að fyrirtækið Anheustur & Busch hóf að nota þetta nafn og hefur það orðið tilefni fjölmargra málaferla í allar áttir síðustu öldina.

Niðurstaðan fyrir nokkrum árum varð sú að Budweiser Budvar má nota þetta heiti á bjórnum í Evrópu en í Bandaríkjunum gengur hann undir nafninu Czechvar.

En nóg um það. Þetta er fantagóður ljós lager með kröftugu bragði, hann freyðir hressilega og hefur mátulega beiskju. Um margt svipaður í stílnum og bestu bjórar Suður-Þýskaland, t.d. Bæjaralands.

 

Deila.