Rjóminn í ríkinu

Það má segja að undanfarnar vikur höfum við verið að fleyta rjómann af vínúrvalinu í ríkinu enda er desember á mánuður sem við gerum best við okkur bæði í mat og drykk. Það hafa margir verið að dusta rykið af bestu flöskunum í kjallaranum og leita að þessu eina rétta með rjúpunni eða hreindýrinu eða þá að velta fyrir sér hver séu nú bestu kaupin með kalkúninum.

Margt af því sem setjum á borðið í desember fellur vel að bestu fáanlegu vínum sem framleidd eru. Má þar nefna íslensku villibráðina, hreindýr, rjúpur og auðvitað fjallalambið. Íslenskur humar þarf sömuleiðis vegleg vín hvort sem hann er grillaður, bakaður eða soðinn í súpu.

Annað er hins vegar erfiðara að finna rétta vínið við. Hangikjötið er eilíft vandamál og um leið og við bætum sætu meðlæti á borð við rauðkál á borðið fara sum af betri vínunum í keng.

Ef við byrjum á hvítvínum þá eru tvö svæði sem koma fyrst upp í hugann ef við viljum vera klassísk. Alsace og Bourgogne í Frakklandi. Chablis-vínin eru alltaf sígild og eitt það besta sem í boði er kemur frá Olivier Leflaive en einnig eru Chablisienne og Laroche-vínin ávallt traust.

Pouilly-Fuissé hefur einnig verið vinsælt lengi og ekki að ósekju. Þaðan má mæla sterklega með Drouhin Pouilly-Fuissé.

Búrgundarvínin eru tilvalin með t.d. humar og öllum fiskréttum með sósum. Með köldum réttum, reyktum og gröfnum lax og jafnvel foie gras og hangikjöti er Alsace besti kosturinn. Vínin frá Pfaffenheim, Trimbach, Willm og Hugel eru alla jafna skotheld.

Með íslensku hreindýri á fátt betur við en vínin frá Bordeaux í suðvesturhluta Frakklands. Þau eru vissulega ekki ódýr en þau eru þegar best lætur einhver bestu vín sem framleidd eru. Ég vil nefna tvö sem eru virkilega góð en ekki allt of dýr. Annars vegar Chateau Teyssier frá framleiðandanum Maltus í St. Emilion og hins vegar Fleur Maillet frá Pomerol. Toppvín úr Bordeauxþrúgunni Cabernet Sauvignon eru hins vegar ekkert verri kostur og má nefna hið spænska Mas la Plana sem dæmi.

Með rjúpunni eru Rhone-vínin í essinu síni og er Chateauneuf du Pape frá Vidal-Fleury eða Chapoutier góður kostur. Töluvert ódýrari en einnig mjög góð frá sama héraði eru Cotes-du-Rhone vínin frá Guigal og Perrin og Vidal-Fleury.

Brunello, t.d. frá Banfi, er einnig góður kostur með villibráðinni, sömuleiðis ofur-Toskanavín á borð við Cepparello, Cum Laude og Casalferro eða þá Fontanafredda Barolo og Bava Barolo.

Vínin frá Rioja og Ribera del Duero á Spáni eru einhver bestu nautakjötsvín sem hægt er að hugsa sér og koma einnig vel til greina með mildri vilibráð og önd. Það eru nokkur virkilega góð í boði í vínbúðunum og má nefna Roda Reserva, Baron de Ley og Beronia Reserva.

Frá Nýja heiminum koma einnig mörg virkilega góð vín og oftar en ekki aðeins ódýrari en sambærileg evrópsk vín. Þau vín sem hér eru nefnd henta til dæmis öll vel með kalkún og þau kröftugri einnig með mildri villibráð.

Argentína hefur til dæmis notið mikilla vinsælda það sem af er þessu ári en þaðan koma til dæmis hin frábæru Catena-vín. Catena Malbec og hið ódýrara Alamos eru virkilega frambærilegir fulltrúar argentínskrar víngerðar.

Í Chile handan Andes-fjallanna er Carmenere-þrúgan að verða stöðugt vinsælli og er hún til dæmis uppistaðan í Purple Angel sem er eitt besta vín Chile enda úr smiðju meistaranna í Montes. Vínin frá Carmen eru sömuleiðis í hæsta klassa og Casillero del Diablo línan frá Concha y Toro gefur mikið fyrir peninginn.

Ástralir eru hins vegar Shiraz menn og sú þrúga sýnir sínar bestu hliðar í vínum á borð við Grant Burge Barossa Vines Shiraz, Peter Lehmann Shiraz og Jacob’s Creek Three Vines.

Deila.