Secco-Bertani 2006

Vínið Secco-Bertani er eitt af þeim vínum sem keppir um titilinn fyrsta ripasso-vínið. Til að skilja hvað ripasso er þurfa menn fyrst að átta sig á því hvað amarone-vín eru.

Amarone eru vín þar sem þrúgurnar eru ekki settar í gerjun beint eftir tínslu heldur látnar þurrkast í nokkra mánuði. Í janúar eða febrúar, þegar þrúgurnar eru tilbúnar, eru þær settar í ámur, sem komið er fyrir á hlýjum stað í kjallaranum. Fer þá víngerjunin smám saman af stað. Áður gat gerjunin tekið allt að ár en nú til dags er ferlið yfirleitt innan við tveir mánuðir og er víngerjunin búin í mars. Amarone er yfirleitt látið liggja á tunnum í þrjú til sex ár, vínið er áfengt, 15-16%, en algjörlega þurrt.

Þegar safinn er skilinn frá í lok Amarone-víngerjunarinnar er afganginum, þykkum sætum massa, blandað saman við ungt Valpolicella-vín og gerjunin kemst í gang á nýjan leik, Að því búnu er vínið látið þroskast á tunnum. Þessi aðferð er kölluð ripasso.

Secco-Bertani 2006 er flott Ripasso, þurr angan af súkkulaðilegnum kirsuberjum, fjósi og valnhetum. Þurrt, stíft og elegant í munni með þykkum tannínum og ákveðnum beiskleika, sem gerir þetta að víni sem fellur vel að pastasósum þar sem tómatar eða ostur eru í forgrunni.

 

Deila.