Domaine Weinbach Cuvé St. Catherine 2005

Einn merkasti framleiðandi hvítvína í Alsace (Elsass) í Frakklandi er Domaine Weinbach. Fyrirtækið á um 26 hektara af ekrum á Kaysersberg-svæðinu. Vín undir merkjum Weinbach hafa verið framleidd frá 1612 er Capuchin-munkar hófu þar víngerð.

Vín fyrirtækisins eru enn kennd við klaustrið, Clos de Capucin, en á ekrum þess hefur vínviður verið ræktaður frá íslensku landnámsöldinni. Í rúma öld hefur Weinbach verið í eigu Faller-fjölskyldunnar og frá 1978 hafa mæðgurnar Colette, Catherine og Laurence séð um víngerð og rekstur.

Einkenni Weinbach-vínanna er mikill þroski, allar þrúgur eru lífrænt ræktaðar og handtíndar seint á haustin.

Domaine Weinbach Cuvé St. Catherine 2005 er Pinot Gris sem endurspeglar þetta vel. Kryddað með hunangi, bragðsprenging í nefi, ljúffengur, sætur ávöxtur,  vínið þurrt en samt með þeirri dýpt og þeim þunga sem einkennir vendange tardive-sætvínin.

Vín sem kallar á mikinn mat,  eiginlega frekar kjöt en fisk og þykkar sósur, t.d. kjúkling eða kálf í rjómasósu. Einnig tilvalið með gæsalifur.

4.960 krónur

 

 

 

Deila.