Freyðandi freistingar

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar áramót eru annars vegar. Góður félagsskapur, flugeldar, áramótaskaup, áramótaheit og síðast en ekki síst hljóðið af kampavínstöppum er fjúka úr flöskum með hvelli þannig að hægt sé að skála fyrir því að nýtt ár sé nú gengið í garð.

Margir nota orðið kampavín sem samheiti yfir freyðandi vín. Það eru hins vegar alls ekki öll freyðivín kampavín þótt öll kampavín séu freyðivín.

Freyðivín eru framleidd í öllum víngerðarlöndum. Á Ítalíu drekka menn Spumanti eða freyðandi Lambrusco. Spánverjar eru með réttu stoltir af hinum ágætu Cava-vínum sínum sem framleidd eru í Katalóníu. Í flestum víngerðarhéruðum Þýskalands eru framleidd og drukkin Sekt-vín, þau bestu úr Riesling-þrúgunni og í Ástralíu drekka menn gjarnan freyðandi dökkrautt Shiraz-vín um jólin. Um allt Frakkland má finna freyðivín og má þar nefna Crémant-vínin sem framleidd eru í Alsace og Bourgogne.

Það er hins vegar ekki Crémant d’Alsace sem er þekktasta freyðivín Frakklands heldur freyðivínin frá víngerðarhéraðinu Champagne.

Það er í norðurhluta Frakklands, austur af París og eru víngerðarsvæðin í kringum hina sögufrægu borg Reims. Þar og í nágrannabæjunum Epernay og Ay eru höfuðstöðvar flestra kampavínsfyrirtækja og teygja kjallarar þeirra sig undir borgina á stóru svæði.

Vegna „ástandsins“ á Íslandi hafa kampavín stórhækkað í verði, ef einhvern tímann á árinu sé engu að síður ástæða til að leyfa sér slíkan munað er það í kringum áramótin og í vínbúðunum má fá kampavín frá afbragðs kampavínshúsum á borð við Veuve-Clicquot, Mumm og Bollinger.

Það er hins vegar einnig hægt að fá mun ódýrari freyðivín frá öllum heimshornum og eru mörg þeirra ágæt og sum virkilega góð.

Freyðivínin frá Asti í Piedmont á Ítalíu eru létt með mildri sætu og eiga vel við með léttum eftirréttum. Martini Asti (1.499 krónur) er ágætis dæmi, sæt, þroskuð epli, og rósir í nefi.

Villa Jolanda Moscato Rosé (1.350 krónur) er annað létt ítalskt freyðivin úr Moscato-þrúgunni, fallega bleikt á lit. Jarðarber, og klementínubörkur í nefi, freyðir þægilega, ekki of sætt. En svolítið stutt.

Vilji menn þurrari Ítala í svipuðum verðflokki eru Prosecco-vinin tilvalin, en þau eru stundum nefnd “kampavín fátæka mannsins”.

Santero Prosecco Craze (1.490 krónur) er þurrt með skörpum svolítið beiskum keim. Í nefi jörð, ger og “brenni”.

Þjóðverjar framleiða mikið af freyðivínum sem þeir kalla Sekt og það sem hefur notið hvað mestra vinsælda hér á landi í gegnum árin – og raunar í heiminum – er Henckell Trocken (1.560 krónur). Það er hins vegar að mestu framleitt úr frönskum þrúgum þótt víngerðin sé í Þýskalandi. Rósir, ger og sítrus, freyðir létt og vel.

Spænsku freyðivínin koma flest hver frá Katalóníu og kallast Cava. Codorniu Clasico Semo Seco (1.859 krónur) er ágætt slíkt. Í nefi gerbakstur með saffran, (svolítið eins og sænsku lussekatt-snúðarnir) , kryddað, Kröftugt, sýrumikið í munni, væri tilvalið t.d. með Panettone

Utan Evrópu er einnig framleitt mikið af góðum freyðivínum oft úr sömu þrúgum og hin einu sönnu kampavín eins og raunin er með hið ástralska Jacob’s Creek Chardonnay Pinot Noir Brut (1.999 krónur). Sítróna, ger, brioche og kex í angan, óneitanlega svolítið kampavínslegt. Þægilegt, þurrt, vel gert.

En þá að lokum þrenna frá ítalska framleiðandanum Lini.

Lini-fjölskyldan er ein þeirra sem framleiða Lambrusco samkvæmt gömlum hefðbundnum aðferðum, ekki ósvipuðum þeim sem notaðar eru við framleiðslu á kampavíni. Einfaldlega frábær freyðivin.

Lini Lambrusco Bianco (2.190 krónur) er ljóst og fallegt, í nefi jólakaka, súltanínur, súkkat, græn og rauð epli. Kröftugt og mikið bragð.

Lini Pinot (2.190 krónur) er gert úr Pinot Noir-þrúgunni. Nýþveginn þvottur og blómaangan í nefi, ferskt, hreint, milt, blómalegt, sæt eplalykt. Þykkt og fínt í munni.

Lini Rosso (2.190 krónur) er dökkrautt og djúpt á lit, “tyggjó”, skógerber og krækiber í nefi, mjög ungur og fínn safi. Fágað og kolsýran gerir það léttara en liturinn gefur til kynna.

 

Deila.