Vínin frá Cune smökkuð

Vín frá spænska vínfyrirtækinu Cune voru þema smökkunar sem fram fór í Þingholti á vegum fyrirtækisins Haugen þriðjudaginn 19. Janúar. Stjórnaði Oscar J. Urrutia, einn af útflutningsstjórum fyrirtækisins, smökkuninni.

Cune er staðsett í Rioja á Spáni og næstelsta vínfyrirtæki héraðsins, stofnað á síðari hluta nítjándu aldar. Stofnendurnir voru tveir bræður frá Bilbao sem ferðuðust til Rioja til að leita sér lækninga við astma, en gífurleg mengun var í Bilbao á þessum tíma vegna þungaiðnaðar. Þeir heilluðust af þeim tækifærum sem svæðið bauð upp á og ákváðu að fjárfesta í vínrækt.

Fyrirtækið Compania Vinicola del Norte del Espana (Cune) er með þekktustu vínfyrirtækjum Spánverja en í byrjun síðustu aldar bættist vínhúsið Vina Real í sarpinn. Eitt klassískasta Rioja-vínið er einmitt Imperial úr smiðju þess en á smökkuninni voru tvö Imperial vín tekin fyrir, Reserva frá 2001 og Gran Reserva frá 1998.

Árið 1973 urðu tímamót í sögu Cune og raunar víngerðar í Rioja er fyrsta einnar ekru vínhúsið í héraðinu var stofnað. Flest Rioja-vín byggjast á aðkeyptum þrúgum frá fjölda ekra enda er meðalstærð hverrar vínekru í Rioja einungis um hálfur hektari.

Eigendur Cune ákváðu að sameinar nokkrar af bestu ekrunum í eigu fyrirtækisins og mynda með því grunn að vínbúgarðinum Contino. Á ekrum Contino var m.a. að finna nokkuð magn af Graciano-vínvið en sú þrúga var nánast útdauð á þessum tíma. Contino er enn með bestu vínum Rioja og þegar aðstæður leyfa er framleitt eitt sérstakasta vín héraðsins, hreinræktað Graciano.

Contino Graciano var einmitt smakkað þetta kvöld og sömuleið annað enn fágætara vín, sætvínið Corona, sem framleitt er úr Viura-þrúgunni. Þótt einungis séu örfáar flöskur framleiddar af því víni tryggði Cune að enginn annar gæti skráð það vörumerki á Spáni – tiltekin þekkt mexíkósk bjórtegund er því seld undir nafninu Coronita á Spáni.

Cune-vín hafa verið fáanleg í vínbúðunum síðastliðna mánuði og verður fjallað nánar um nokkur þeirra á næstunni. Önnur af betri vínunum, s.s. Contino og Vina Real, verður hægt að sérpanta.

Deila.