Fylltir tómatar

Tómatar eru mikið notaðir í matargerð og hér göngum við alla leið og setjum þá í aðalhlutverk. Þetta er afskaplega einfaldur og fljótlegur réttur en engu að síður mjög góður.

Fyrir fjóra þarf eftirfarandi:

  • 8 tómata, ekki of litla
  • 600 g nautahakk
  • 1 lauk, saxaðan
  • 4 hvítlauksgeira, fínt saxaða
  • 1 dl rauðvín ef þið eigið það til
  • 1 lítil dós tómatakraftur
  • ferskar kryddjurtir, t.d. rósmarín, óregano og steinselju eða þurrkað rósmarín og óreganó og ferska steinselju
  • Salt og pipar

Skerið ofan af tómötunum og haldið „lokinu“ til haga. Hreinsið innan úr tómatinum með skeið og saxið innvolsið.

Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn og hvítlaukinn. Bætið kjötinu út á og brúnið það í fimm mínútur eða svo. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við kryddjurtunum. Setjið nú tómatakrafinn út á og hrærið saman við og svo saxaða tómatainnvolsið. Látið malla í nokkrar mínútur og hellið þá rauðvíninu út á. Sjóðið rauðvínið niður.

Setjið tómatana í ofnfast fat og fyllið þá með kjötinu. Setjið lokið ofan á. Ef eitthað kjöt er afgangs þá er gott að setja það í fatið með tómötunum.

Setjið inn í 200 gráða heitan ofn og eldið í 20-30 mínútur eða þar til tómatarnir eru orðnir alveg mjúkir og eldaðir í gegn.

Berið fram með fersku salati, hrísgrjónum eða pasta. Það er líka mjög gott að hafa smá nýrifinn parmesan til hliðar.

Einfalt en gott suður-ítalskt rauðvín með, t.d. A Mano eða Lamadoro.

 

Deila.