Friðrik Valur í samstarf við Edduhótelin

Hótel Edda hefur gengið til samstarfs við hjónin Friðrik Val Karlsson og Arnrúnu Magnúsdóttur, sem áður ráku veitingastaðinn Friðrik V á Akureyri. Friðrik og Arnrún munu í sumar vinna náið með Edduhótelunum 13 sem starfrækt eru á landsbyggðinni að frekari þróun veitingastaða hótelanna.

Markmið samstarfsins er að efla enn frekar áherslu Eddu hótelanna á íslenska matargerð og hefðir, og munu hótelin njóta góðs af leiðsögn Friðriks Vals og nálgun hans á notkun íslensks hráefnis úr hverju héraði fyrir sig.

Hjónin Friðrik Valur Karlsson og Arnrún Magnúsdóttir stofnuðu veitingastaðinn Friðrik V árið 2001. Friðrik er útskrifaður frá Hótel- og veitingaskóla Íslands árið 1993. Friðrik sérhæfir sig í að elda úr fersku íslensku hráefni á nútíma, evrópska vísu, og hefur hann getið sér gott orð fyrir „túlkun“ sína á íslensku hráefni og matarhefðum.

Í samstarfi við þau hjónin munu hótelin nú leggja áherslu á að skerpa enn frekar á sérstöðu hvers og eins hótels, og draga fram helstu eiginleika íslenskrar náttúru og síns nánasta umhverfis í sinni matargerð.

Deila.