Pan Catalan

Pan Catalan þýðir katalónskt brauð og er í sjálfu sér mjög einfaldur réttur en byggir á því að nota hágæða hráefni. Bestu olíuna, vel þroskaða tómata og góðan hvítlauk.

Spánverjar gera einhverja bestu skinkur sem til eru. Þær allra bestu eru Jabugo-skinkurnar frá Suður-Spáni en Serrano-skinkan er sömuleiðis mjög góð og má kaupa í sneiðum í flestum stórmörkuðum. Einnig er hægt að nota ítalska Parma-skinku með góðum árangri.

Ég kynntist þessum rétti fyrst á veitingahúsum í Katalóníu fyrir um tveimur áratugum og kolféll fyrir honum frá upphafi. Þetta er hið sígilda upphaf á góðri katalónskri máltíð en maður verður að vara sig á því að borða ekki of mikið ef fleiri réttir eiga eftir að koma.

Þetta þarf:

  • Gott millidökkt brauð, t.d. í ítölskum stíl
  • vel þroskaða tómata
  • Serrano eða Parma-skinku
  • hvítlauk
  • ólívuolíu

Skerið brauðið í sneiðar og ristið á grillinu eða hitið í ofnin þar til brauðið er orðið stökkt og fínt. Ef það er grillað á mjög heitu grilli tekur þetta mjög skamman tíma og passa verður upp á að brenna ekki brauðið.

Takið sneiðarnar af grillinu, skerið hvítlauksgeirana í tvennt og nuddið þeim inn í brauðið. Skerið tómatana í tvennt og nuddið þeim sömuleiðis inn í brauðið og kreistið í leiðinni til að fá safann úr þeim. Hellið hágæða ólívuolíu yfir og þekjið loks sneiðarnar með góðri skinku.

Þetta er réttur sem smellur eins og flís við rass við góð spænsk rauðvín ekki síst frá Rioja og er eins og áður sagði gott upphaf að máltíð.

Deila.