Bordeaux 2009 – ofurárgangur allra tíma?

Það hefur ekki verið neinn skortur á stórkostlegum árgöngum frá Bordeaux á síðastliðnum árum. Öldin hófst með hinum stórkostlega 2000-árgangi og nokkrum árum síðar voru menn sammála um að 2005 væri líklega einn besti árgangur allra tíma. Nú eru vísbendingar um að vín ársins 2009 slái þeim öllum út.

Vínin frá 2009 liggja raunar enn og bíða í eikarámunum í kjöllurum vínhúsanna og væntanlegir viðskiptavinir fá þau ekki til sín fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Salan er hins vegar smám saman að hefjast eftir því sem vínhúsin gefa út verð sín.

Fyrstu smakkanirnar á árganginum fóru fram í síðustu mánuði og hafa sérfræðingar um allan heim verið að vega og meta gæði 2009. Skoðanir voru skiptar um 2007 og 2008 en allir, austan hafs og vestan, virðast sammála um að 2009 sé einstakur árgangur, sem líklega slái 2005 við sem margir töldu þó á sínum tíma að yrði „árgangur aldarinnar“.

Áhrifamesti vínsérfræðingur heims, hinn bandaríski Robert Parker, er ekkert að skafa utan af því. Hann hefur lýst því yfir að 2009 sé besti árgangurinn sem hann hefur metið á 32 ára ferli sínum og gaf hvorki meira né minna en 18 vínum einkunn á bilinu 98-100.

Hann taldi meira að segja þörf á því í sumum tilvikum að víkka út 100-punkta kerfið sitt og gefa sumum hærri einkunn en 100. Vissulega séu gæðin ekki jafn jöfn og 2005 en bestu vínin séu mun betri en þá.

Bretarnir hjá Berry Brothers & Rudd, virtasta vínsöluhúsi heims, eru sammála um að bestu vínin séu algjörlega einstök en þeir setja þó spurningamerki við t.d. þurru hvítvínin frá Péssac sem séu of þroskuð og mikil. Spurning hvað þau endist lengi.

Jancis Robinsons, einn virtasti vínsérfræðingu Breta, segir í Financial Times að 2009 sé „þroskaðasti“ árgangur sem hún hafi nokkru sinni smakkað og aldrei hafi hún áður orðið að lýsa vínum frá þessu svæði með orðinu „Napa“ en mörg vínanna ná upp í 14% í áfengismagni.

Hún líkt og flestir aðrir telur vinstri bakkann, þ.e. Médoc-skagann, koma betur út en St. Emilion og Pomerol og jafnframt sé líklegt að vínin verði neysluhæf jafnvel innan fimm ára. Þetta sé því tilvalinn árgangur til að njóta á meðan biðið sé eftir risunum frá 2005 sem þurfi mun lengri tíma.

Verðin eru smám saman að koma í ljós og þetta verða ekki ódýr vín. Vonandi þó ekki mikið dýrari en 2005 árgangurinn, enda heimurinn í efnahagslegri lægð. Ekkert bendir þó til annars en að Asía muni gleyma árganginn að miklu leyti.

Á myndunum sjáum við Chateau Vieux-Chateau-Certan, Chateau Agassac og Chateau Mouton-Rothschild.

 

Deila.