Mesquite og lemongrass kjúklingur með paprikusósu og guacamole

Þetta er hörkugóður grillaður kjúklingur í anda bandaríska suðvestursins þar sem mexíkóskra áhrifa gætir mikir. Hægt er að nota hvort sem er heilan kjúkling klipptan í bita eða þá skinnlausar kjúklingabringur. Með kjúklingnum höfum við svo heimtailbúið Guacamole og paprikusósu.

  • 1 kjúklingur skorinn í 8 bita eða 3-4 kjúklingabringur
  • 1 dós grillaðar paprikur

Uppskriftina að Gucamole má sjá með því að smella hér.

Í kryddlöginn fer eftirfarandi:

  • 1-2 stilkar lemongrass, saxað niður
  • 2 matskeiðar McCormick Mesquite krydd
  • 4 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 laukur, saxaður fínt
  • 2 límónur, safinn pressaður
  • 1 dl ólívuolía
  • 1 dl Caj P grillolía
  • salt og pipar

Blandið öllu saman í skál. Veltið kjúklingabitunum upp úr og leyfið þeim að marinerast í nokkra klukkutíma eða allt upp í sólarhring í ísskáp.

Takið bitana úr leginum og grillið.

Paprikusósan

Á meðan er gott að undirbúa paprikusósuna, sem er sáraeinfalt. Takið paprikurnar upp úr leginum í dósinni og maukið í matvinnsluvél ásamt einum hvítlauksgeira. Setjið eina matskeið af olíuleginum úr dósinni með.

Berið kjúklinginn fram með hrísgrjónum, paprikusósunni og Guacamole. Gott er að flatlaufa steinselju fínt yfir diskana.

Með þessu ferskt og gott hvítvín, t.d. Two Oceans Pinot Grigio eða Lamadoro Bianco.

Deila.