Laxamús með hvítvínshlaupi

Þegar aðalrétturinn krefst mikilar fyrirhafnar og vinnu getur verið gott að hafa forrétt sem er fljótlegur og einfaldur í undirbúningi. Í þessa laxamús notum við bæði ferskan lax og reyktan og útkoman mjúk og bragðmild mús. Uppskriftin er fyrir fjóra til sex eftir því hversu stór form eru notuð og hversu matarmikill forrétturinn á að vera.

Hráefni:

  • 200 g reyktur lax
  • 100 g ferskur lax
  • 2 dl rjómi
  • 2 matarlímsblöð
  • 1 msk sítrónusafi
  • salt og pipar

Takið fram fjögur lítil form eða fjóra bolla og setjið litla þunna sneið af reyktum lax í botninn á hverju formi. Það er til dæmis tilvalið að nota múffuform.

Sjóðið laxinn.

Maukið reykta laxinn og soðna laxinn varlega saman í matvinnsluvél. Hrærið rjómanum og sítrónusafanum saman við. Saltið og piprið.

Mýkið matarlímsblöðin í köldu vatni. Hitið þau síðan ásamt örlitlu vatni í vatnsbaði. Þegar matarlímið hefur bráðnað er því blandað saman við laxamaukið.

Setjið maukið í forminn og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 6 klukkustundir áður en laxamúsina á að bera fram.

Hvítvínshlaup

  • 3 dl hvítvín
  • 3 matarlímsblöð

Mýkið matarlímsblöðin í köldu vatni. Hellið hvítvíninu í pott og hitið ásamt matarlímsblöðunum og klípu af salti. Þegar þau hafa bráðnað slökkvið þið á hitanum. Hellið í skál og setjið í ísskáp. Þegar vínið hefur kólnað og er orðið að hlaupi (gefið ykkur að minnsta kosti fjórar klukkustundir) er því skellt á skurðbretti og skorið niður í litla bita.

Setjið laxamúsina á diska. Raðið hlaupbitunum í kringum músina. Skreytið með fínt söxuðu dilli og/eða graslauk.

 

Með þessu hentar góður Chablis fullkomlega.

Deila.