Kjúklingur á teini

Kjúklingur nýtur mikilla vinsælda hjá grillurum landsins. Það er hægt að útbúa kjúkling til grillmatreiðslu á óendanlega vegu. Sama hvernig kjúklingurinn er kryddaður verður útkoman, ef kjúklingurinn er grillaður heill, hins vegar hvað best ef kjúklingurinn er grillaður á teini sem snýst hægt yfir grillinu. Slíka teina með rafmótór má fá á mörg betri grill. Svo er auðvitað líka hægt að snúa teini sjálfur.

Þegar kjúklingur er grillaður með þessum hætti er æskilegt að binda saman læri og vængi þannig að þau fái jafna eldun á við aðra hluta fuglsins og brenni síður. Þá er skynsamlegt, ef grillað er á kolagrilli, að setja álbakka undir fuglinn til að fanga fitu sem lekur af honum og koma í veg fyrir að hún blossi upp og brenni fuglinn. Ef grillað er á gasgrilli er best að slökkva á miðjubrennaranum þannig að ekki sé beinn eldur yfir fuglinum.

Grillið þarf að hita fyrst, kjúklingurinn er svo þræddur upp á grillteinin og hann settur á grillið. Kjúklingurinn þarf um 30-40 mínútur undir loki til að verða fulleldaður, allt eftir stærð og hita grillsins.

Hér eru tvær tillögur að því hvernig hægt er að elda kjúkling á teini. Tilvalið er að elda fleiri en einn fugl í einu og þá jafnvel krydda með ólíkum hætti.

Kjúklingur með kryddsmjöri

Blandið saman:

  • 3 msk smjör
  • 1 msk kalkúnakrydd frá Kryddveislunni eða Pottagöldrum
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • salt og pipar

Rennið fingri undir húðina á kjúklingnum og losið skinnið frá bringum og lærum. Troðið smjörinu undir húðina við bringur og læri. Smyrjið líkja kjúklinginn sjálfan með smjörinu. Saltið og piprið.

Sítrónukjúklingur á teini

Saltið kjúklinginn og piprið að innan. Setjið hálfan, flysjaðan lauk, hálfa sítrónu (tvo helminga ef þið komið þeim fyrir) og rósmarínstöngul inní kjúklinginn. Penslið kjúklinginn með ólívuolíu. Saltið, piprið og kryddið vel með paprikukryddi.

Deila.