Morande Gran Reserva Syrah 2007

Þegar vín úr Syrah eru góð þá eru þau hrikalega góð og vínræktendur í Chile eru margir farnir að ná fantagóðum tökum á henni. Það er líka einkennandi að þeir nota yfirleitt franska nafnið á þrúgunni en ekki Nýja-heimsnafnið Shiraz enda sækja vínin oft meiri innblástur til Rhone-dalsins í Frakklandi en Barossa í Ástralíu.

Morande Gran Reserva Syrah er vín frá hinu klassíska vínræktarsvæði Maule, dökkfjólublátt og djúpt á lit. Í fyrstu er það eikin, kaffi og súkkulaði sem birtist í nefi en smátt og smátt kemur djúpur, lagskiptur ávöxtur í ljós. Bláber og dökk kirsuber, kryddað með kanilstöng og kókos. Kraftmikið og tannískt með öflugri sýru. Leyfið víninu að njóta sín til fulls og umhellið í góða tíð. Það borgar sig.

2.790 krónur. Mjög góð kaup.

 

Deila.