Mojito – vinsælasti kokteill í heimi

Það er ekki bara á Íslandi sem að rommdrykkurinn Mojito nýtur mikilla vinsælda. Könnun á vegum tímaritsins Drinks International meðal barþjóna um allan heim leiðir í ljós að Mojito er hvorki meira né minna en vinsælasti kokteill í heimi.

Þegar niðurstöður sambærilegrar könnunar voru birtar í fyrsta skipti á síðasta ári var Mojito líka í efsta sætinu en einhverjar breytingar hafa orðið á sætunum þar fyrir neðan. Martini, Cosmopolitan, Margarita og Caipirinha verma nú næstu sætin á eftir en í fyrra var röðin Margarita, Caipirinha, Cosmopolitan og Martini.

Uppruni Mojito er á Kúbu þar sem löng hefð er fyrir framleiðslu á rommi úr sykurreyrnum. Þetta er í sjálfu sér afskaplega einfaldur drykkur. Limesafa, hrásykri og myntu er blandað saman við rommið ásamt klaka og sódavatni. Í einfaldleikanum felst hins vegar snilldin og í Mojito tekst að tempra kraftinn úr romminu og bæta við í senn ferskleika úr súrum lime-ávextinum og sætu.

Sumir hafa viljað reka sögu Mojito allt aftur til sautjándu aldar en það er líklega óhætt að segja að það hafi verið Ernest Hemingway, sem dvaldi langdvölum á Kúbu fyrir stríð, sem gerði Mojito ódauðlegan en þetta var uppáhaldsdrykkur hans og hvergi þótti honum hann betri en á veitingahúsinu La Bodeguita del Medio í Havana en á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig að menn blanda Mojito þar. Til Bodeguita del Medio er víða vísað í menningunni og má nefna eftirfarandi orðaskipti Crocketts og Isabellu í Michael Mann-kvikmyndinni Miami Vice:

Crockett: Where do you like to go?

Isabella: What do you like to drink?

Crockett: I’m a fiend for mojitos.

Isabella: I know a place.

Isabella: I’ll take you to the best place for mojitos.

Crockett: Where is that?

Isabella: Bodeguita del Medio.

Crockett: In the Keys?

Isabella: Havana.

Mojito hefur fyrir löngu farið í útrás um allan heim og á börum í öllum heimsálfum er hægt að fá Mojito í óteljandi útgáfum. Hinn klassíski Mojito stendur auðvitað alltaf fyrir sínu en Mojito Real er svo eins konar lúxusútgáfa þar sem kampavín eða freyðivín kemur í stað sódavatnsins.

Nokkrar aðrar útgáfur sem að þekktir erlendir barþjóna hafa sett saman eru Havana Green, Chili Mojito,  og Cojito þar sem að tveimur af þekktustu kokkteilum Kúbu, Mojito og Daiquiri er steypt saman. Kóríander Vodka Mojito skiptir út myntunni og romminu eins og nafnið gefur til kynna og Absolut Raspberri Mojito tekur það konsept enn lengra. Í Xanté Mojito er perukoníakslíkjörinn Xanté notaður í stað romms og það segir sig sjálft hvað er notað í Kampavíns Mojito.

Íslenskir barþjónar hafa líka verið iðnir við að leika sér með þetta þema og má nefna Mangó Mojito sem Valtýr Bergmann á Fiskmarkaðnum á heiðurinn af og Jarðaberja Mojito barþjónanna á Thorvaldsen.

Deila.