Argentínskir á Argentínu

Þeir Juan Ignacio Torre og Tomas Urdapillata, sem eru annars vegar útflutningsstjóri og hins vegar svæðisstjóri, hjá Trivento í Argentínu komu hingað til lands í síðustu viku til að fara yfir stöðuna á íslenska markaðnum en Trivento er einmitt mest selda argentínska vínið á Íslandi. Þeir héldu nokkrar smakkanir á vínum Trivento og kynntu meðal annars nýtt vín úr Shiraz í Golden Reserve-línunni sem er væntanlegt hingað á markaðinn en hér er nú fáanlegt vínið Golden Reserve Malbec. Þá komu þeir við á Argentínu til að bragða á nýjum matseðli sem þar var kynntur í síðustu viku þar sem boðið er upp á fjóra rétti, hægeldaðan lax, ristaða humarhala með Serrano-skinku, hvítlauksmarineraða og grillaða rumpsteik og loks karamellu og romm Panna Cotta á 8.650 krónur. Með seðlinum er síðan í boði fjögurra glasa vínseðill með vínum frá Trivento á 5.500 krónur.

Deila.