Lasagna með kjúkling og kókoskarrý

Hér mætast Ítalía og Asía í uppskrift sem á rætur sínar að rekja til Kaliforníu.

Kókoskarrýsósa:

 • 5 dl kjúklingasoð
 • 1 stór dós Coconut Milk
 • 1 msk karrý
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • salt

Kjúklingurinn

 • 400 g kjúklingur, beinlaus, t.d bringur eða læri
 • 1 stór laukur, saxaður
 • 3 sellerístönglar, saxaðir
 • 2 paprikur, skornar í litla bita
 • 4 vorlaukar, saxaðir
 • 4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • 1 lúka ferskt marjoram eða óreganó, saxað
 • 200 g rifinn ostur
 • salt

Þessu til viðbótar þarf um 16 lasagnaplötur. Best er að nota ferskt pasta. Ef notað er þurrkað pasta er gott að forsjóða plöturnar til að mýkja þær.

Hellið kjúklingasoði og kókosmjólk í pott, hitið upp að suðu og látið malla á vægum hita í 10-15 mínútur. Blandið þá kryddunum saman við og látið malla í 10 mínútur til viðbótar. Bragðið til með salti.

Skerið kjúklinginn í bita. Hitið olíu á pönnu. Mýkið lauk, vorlauk, sellerí hvítlauk og papriku í olíunni á miðlungshita í um 10 mínútur. Bætið þá kjúklingnum og marjoram/óreganó saman við. Haldið áfram að steikja þar til búið er að brúna kjúklinginn. Saltið og piprið.

Þekjið botninn lasagnamóti með sósu. Raðið lasagnaplötum yfir og síðan lagi af kjúklingablöndunni, hellið sósu yfir og sáldrið osti yfir. Haldið svona áfram koll af kolli þar til búið er að byggja upp þrjú lög. Sáldrið vel af osti yfir í lokinn.

Setjið álpappír yfir og bakið við 200 gráður í 30 mínútur. Takið þá álpappírinn af bakið áfram í 10-15 mínútur. Breið strax fram með fersku salati.

Hér þarf ávaxtaríkt og ferskt hvítvín með. Reynið t.d. hið ítalska Ser Piero Chardonnay.

Deila.