Tres Patas 2007

Tres Patas er vín frá litlu vínhúsi sem heitir Bodegas Canopy og er staðsett í Méntrida, rétt fyrir utan borgina Toledo á Mið-Spáni.

Vínhúsið var stofnað af tveimur víngerðarmönnum, þeim Alfonso Chacon Gil og Belarmino Fernárdez og fyrsta vínið kom á markað árið 2006.  Þeir hafa frá upphafi sett markið gífurlega hátt, framleiða lítið en í hæsta gæðaflokki. Méntrida varð fyrir valinu þar sem þar fundu þeir vínekru sem hentaði, aðallega gamall Garnacha-vínviður, í 750 metra hæð yfir sjávarmáli.

Tres Patas er eitt fjögurra vína Canopy, 80% Garnacha og 20% Syrah. Dökkt, með þurru jarðbundnu, míneralísku yfirbragði í nefi, svartir ávextir, þroskuð sólber og kirsuber, krydd. Mjög þétt í munni og fylgið sér, með dimmum, djúpum ávexti og nokkuð ágengum tannínum.

Þetta er vín sem skilyrðislaust þarf að umhella, það þarf þó nokkurn tíma áður en það vaknar og fer að sýna hvað í því býr. Lokað í fyrstu en springur svo út. Flaska sem var opnuð en ekki umhellt var kominn í stuð sólarhring síðar. Mætti að ósekju geyma í 3-5 ár. Vín sem endurspegla margt af því mest spennandi sem er að eiga sér stað þessa stundina í spænskri víngerð.

3.850 krónur.

 

Deila.