Risarækjur í Chermoula

Chermoula er sósa sem er algeng í Marokkó, Túnis og Alsír og er yfirleitt notuð með sjávarréttum.

 • 4-500 g risarækjur
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 rauður chilibelgur, fræhreinsaður og skorinn í strimla
 • 8 vorlaukar, skornir í 2 sm bita
 • 4 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 5 sm biti af engiferrót, flysjið og skerið í „julienne“, litlar ræmur líkar eldspýtum
 • 1/2 sítróna
 • 2 tsk cummin
 • 1 tsk paprika
 • 1,5 dl hvítvín
 • 10 svört piparkorn
 • 1 kafir limelauf (má sleppa, fæst t.d. í Heilsuhúsinu)
 • klípa af saffran (ca 12 strengir)
 • 1 búnt steinselja (helst flatlaufa), grófsaxað
 • 1 búnt kóríander, grófsaxað
 • 2 msk hveitir salt og pipar

Afþíðið og skolið vel. Setjið rækjurnar, 1 tsk salti, cummin, papriku og hveitið í poka og hristið vel saman. Geymið.

Hitið hvítvín, limelauf, tómatana og piparkornin í potti. Látið malla á vægum hita í um korter. Hækkið þá hitann og sjóðið niður í um 3-4 mínútur. Slökkvið á hitanum og hrærið saffran saman við. Geymið.

Hitið um 5 msk af ólívuolíu á stórri pönnu. Þegar olían er orðin heit setjð þið vorlaukinn, hvítlaukinn, engiferræmurnar og chili á pönnuna og svissið í um mínútu. Bætið saffranblöndunni saman við ásamt safa úr hálfri sítrónu, hrærið vel saman og setjið rækjurnar strax út á pönnuna. Haldið áfram að hræra í með sleif í um 2-3 mínútur eða þar til rækjurnar hafa tekið á sig bleikan lit.

Slökkvið á hitanum og blandið steinselju og kóríander saman við. Geymið smá kóríander til skreytingar.

Bragðið til með salti og pipar. Sáldrið kóríander yfir og berið fram.

Með þessu ungt og ferskt hvítvín, t.d. Two Oceans Pinot Grigio.

 

 

 

Deila.