Kjúklingur í avgolemono-súpu

Avgolemono er ein af grunnsósum gríska eldhússins og þýðir einfaldlega egg og sítróna. Hér er sósan meira í átt við súpu en kjúklingur í þannig súpu heitir kotopoulo soupo avgolemono á grísku.

 • 1 kjúklingur
 • kjúklingasoð
 • 2 gulrætur, gróft niðursneiddar
 • 2 laukar, grófsaxaðir
 • 1 sellerístilkur, grófsaxaður
 • 2 timjanstönglar
 • 1 msk svört piparkorn
 • 1 tsk Maldonsalt
 • 4 eggjarauður
 • 1,5 sítrónur, safinn pressaður
 • væn lúka af saxaðri flatlaufa steinselju

Setjið kjúklinginn í stóran pott ásamt vatni og kjúklingakrafti, gulrótunum, lauknum, sellerí, timjan, salti og piparkornum. Leyfið suðunni að koma upp og látið malla í 80-90 mínútur.

Takið kjúklinginn upp úr soðinu og skerið kjötið af beinunum. Geymið og haldið heitu undir álpappír.

Setjið kjúklingabeinin aftur í pottinn og sjóðið áfram í 10-15 mínútur. Síið soðið. Það þurfa að vera um 1,5 lítrar eftir af soði.

Pískið eggjarauðurnar saman. Bætið um 1 dl af soði saman við og pískið vel. Pískið næst sítrónusafanum saman við. Setjið í pott ásamt 7 dl af soðinu, pískið reglulega í og látið malla þar til sósan/súpan hefur þykknað aðeins, það getur tekið alveg um 10-15 mínútur. Bragðið til með salti og pipar ef þarf og bætið við sítrónusafa ef þið viljið meira bit.

Í öðrum potti eru hrísgrjón soðin á meðan í afganginum af soðinu. Ef þið eruð ekki með nóg soð til að sjóða grjónin er vatni bætt saman við. Einnig er gott að krydda grjónin með klípu af kardimommu í soðið.

Setjið kjúklingakjötið í skál og hellið avgolemono súpunni yfir. Sáldrið saxaðri steinseljunni yfir. Berið fram með hrísgrjónum.

Ferskt og lítið eða óeikað suður-evrópskt hvítvín með, t.d. Beso de Vino Macabeo.

 

Deila.