Fregola með aspas og gráðaosti

Fregola er pastastegund frá ítölsku eyjunni Sardiníu sem samræmist kannski ekki hugmyndum margra um pasta. Þetta eru litlar kúlur, minna svolítið á ofvaxið couscous. Enda er Fregola stundum kallað sardínskt couscous. Þessi uppskrift kemur einmitt frá Sardiníu og heitir á mállýsku Sardiníubúa Fregula kin isparau e gorgonzola.

  • 250 g Fregola Sarda
  • 1 skalottulaukur, fínsaxaður
  • 1 búnt grænn aspas
  • 1 dl hvítvín
  • 8 dl kjúklingasoð
  • 100 g gráðostur
  • ólívuolía
  • salt og pipar

Skerið aspasinn í litla bita. Hitið olíu á pönnu og mýkið skalottulaukinn í 4-5 mínútur. Bætið aspasbitum út á og veltið um á pönnunni í um 3 mínútur. Bætið Fregola út á pönnuna og blandið vel saman. Eftir um 2 mínútur er hvítvíninu hellt út og látið sjóða niður. Þá er sjóðandi heitu kjúklingasoðinu hellt út á pönnuna og allt látið malla í um 14 mínútur eða þar til Fregula-kúlurnar eru orðnar fulleldaðar og vökvinn að mestu gufaður upp.

Hrærið kurluðum gráðostinum saman við. Bragðið til með salti og pipar. Hellið smá af mjög góðri ólívuolíu yfir og berið strax fram.

Með þessu á vel við ferskt, suður-ítalskt hvítvín t.d. A Mano Fiano Greco.

 

Deila.